10. janúar 2002

Tillaga til þingsályktunar um eflingu félagslegs forvarnarstarfs

Félagsmálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um tillögu til þingsályktunar um eflingu félagslegs forvarnastarfs, 14. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 10. janúar 2002.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 10. janúar 2002
Tilvísun: UB 0201/4.1.1

 Efni: Tillaga til þingsályktunar um eflingu félagslegs forvarnarstarfs.

Vísað er til bréfs félagsmálanefndar Alþingis, dagsett 28. nóvember 2001, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreinda tillögu.

Efling félagslegs forvarnastarfs er að mínu mati ákaflega þarft og tímabært framtak. Forvarnarstarf á ekki að felast eingöngu í fræðslu og áróðri, heldur einnig í að sjá unga fólkinu fyrir afþreyingu í formi heilbrigðs og uppbyggjandi félagsstarfs. Í þessu sambandi vil ég leggja þunga áherslu á mikilvægi þess að vandað verði til úttektar á félagsstarfi hvers konar, þannig að góður grundvöllur skapist til að setja fram markvissar og haldbærar tillögur til eflingar þessum mikilvæga þætti í daglegu lífi barnanna okkar.

Í greinargerð með tillögunni eru taldir upp nokkrir aðilar, er koma að félagsstarfi barna og unglinga og er þar sérstaklega litið til félagsmiðstöðva, en reynslan sýnir að þangað leita börn og unglingar mikið til tómstundaiðkunar. Þá vil ég taka undir það sem segir um mikilvægi þess að félagsstarfið sé fjölbreytt svo allir finni eitthvað við sitt hæfi, ekki síst unglingar á aldrinum 16-18 ára.

Ég tek heilshugar undir þær hugmyndir, sem fram koma í tillögunni og mæli með því að hún verði samþykkt.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica