21. ágúst 2019

Svar við opnu bréfi varðandi vinnuskóla og lífsleiknikennslu

Vegna opins bréfs Viðars Freys Guðmundssonar til umboðsmanns barna sem birtist þann 29. júní sl.

Vegna opins bréfs Viðars Freys Guðmundssonar til umboðsmanns barna sem birtist þann 29. júní sl.

Svar við opnu bréfi

Embætti umboðsmanns barna hefur ítrekað áréttað mikilvægi þess að börnum séu veitt fjölbreytt tækifæri til að láta skoðanir sínar frjálslega í ljós, eins og kveðið er á um í 12. gr. Barnasáttmálans, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Auk þess njóta börn tjáningarfrelsis á sama hátt og fullorðnir og eiga að fá tækifæri til að tjá sig um öll málefni sem þau varða, og hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku á öllum sviðum samfélagsins. Eftir því sem börn verða eldri og þroskaðri ber að veita þeim aukinn sjálfsákvörðunarrétt sem á einnig við um mögulega þátttöku í mótmælum. Þá skal tekið fram að börn eiga fullan rétt á því að hafna því að tjá sig um tiltekin málefni eða taka þátt í fundum eða mótmælum ef við á.

Umboðsmanni barna er ekki kunnugt um hvernig staðið var að upplýsingagjöf til nemenda í vinnuskólanum eða forsjáraðila þeirra vegna umrædds verkefnis, en ljóst er að nemendur fengu tilboð um þátttöku sem þeim var frjálst að hafna, og þess í stað sinna hefðbundnum störfum vinnuskólans. Í leiðbeinandi viðmiðunarreglum Sambands íslenskra sveitarfélaga um Vinnuskólann kemur fram að hlutverk hans er að gefa börnum kost á samspili vinnu, þjálfunar og fræðslu í sumarleyfi sínu. Með hliðsjón af framangreindu áréttar umboðsmaður barna mikilvægi þess að fyrir liggi skýrar verklagsreglur um hvernig þessum þáttum er háttað og að börn séu ávallt upplýst um að þau eigi rétt á því að samþykkja eða hafna þátttöku í viðburðum af þessum toga.
Í bréfinu eru gerðar athugasemdir við framkvæmd lífsleiknikennslu í tilteknum skólum, og vill umboðsmaður barna því benda á aðalnámsskrá grunnskóla, en þar kemur fram að jafnrétti, lýðræði og mannréttindi eru meðal þeirra sex grunnþátta sem mynda kjarna íslenskrar menntastefnu. Þá kemur fram í inngangi aðalnámsskrár að rækta eigi með markvissum hætti þá þekkingu, leikni og viðhorf sem styrkir getu einstaklinga til að verða gagnrýnir, virkir og hæfir þátttakendur í jafnréttis- og lýðræðissamfélagi. Þá kemur þar jafnframt fram að skólar séu í raun einu stofnanir samfélagsins sem geta tryggt öllum uppvaxandi kynslóðum tækifæri til að búa sig undir þátttöku í virku lýðræði, þjálfa gagnrýna og skapandi hugsun og mæta ólíkum aðstæðum. Til að mæta þessum markmiðum kemur til greina að bjóða upp á fjölbreyttar leiðir í skólastarfi og styðja frumkvæði barnanna sjálfra til þátttöku í málefnum sem á þeim brenna. 

Að lokum vill umboðsmaður barna benda á grein þar sem ungmennin Hildur Lilja Jónsdóttir og Eiður Axelsson Welding svöruðu spurningum Viðars Freys undir fyrirsögninni Mega börn ekki hafa skoðanir fyrr en þau eru 18 ára?
Virðingarfyllst,

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.




Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica