Staða barna með fjölþættan vanda
Þann 2. júlí síðastliðinn komu út tvær skýrslur umboðsmanns Alþingis um Klettabæ annars vegar og Vinakot hins vegar, tvö einkarekin búsetuúrræði fyrir 13 – 18 ára börn.
Margt af því sem kemur fram í þessum skýrslum varpar ljósi á hversu aðkallandi það er að stjórnvöld tryggi réttindi þessa barna án tafar. Í skýrslunum kemur m.a. fram að skortur sé á faglærðu starfsfólki og eftirliti, sveitarfélögin veiti börnunum ekki fullnægjandi upplýsingar m.a. varðandi möguleika þeirra á að leita réttar síns telji þau á sér brotið. Þá kemur einnig fram að misbrestur sé á því að sveitarfélögin meti þjónustuþörf og taki ákvörðun um þjónustu við þessi börn en það er hlutverk sveitarfélaganna lögum samkvæmt og þeim er ekki heimilt að framselja það hlutverk til einkaaðila. Í þessu samhengi tekur umboðsmaður barna undir þann fyrirvara sem umboðsmaður Alþingis gerir varðandi það að gerð stuðnings- eða þjónustuáætlana sé í raun á hendi einkaaðila sem sinni þjónustu á grundvelli samnings við sveitarfélag. Þá kemur fram að ekki sé alltaf gætt að grundvallarsjónarmiðum og réttaröryggi þegar réttindi barnanna eru takmörkuð. Þetta er verulega alvarlegt og úr þessu verður að bæta. Í skýrslum umboðsmanns Alþingis er jafnframt töluvert fjallað um félagslega einangrun barnanna sem dvelja í þessum búsetuúrræðum. Umboðsmaður barna hefur þungar áhyggjur af þessari stöðu, það er ótækt að stjórnvöld tryggi ekki réttindi þessa viðkvæma hóps barna.
Úrræðaleysi í málefnum barna með fjölþættan vanda
Umboðsmaður barna hefur ítrekað vakið athygli stjórnvalda á úrræðaleysi sem ríkt hefur til langs tíma varðandi málefni barna með fjölþættan vanda. Enda berast embættinu reglulega erindi frá foreldrum barna með fjölþættan vanda þar sem þeir lýsa því að skortur sé á stuðningi, þjónustu og úrræðum. Þetta er í samræmi við skýrslu umboðsmanns Alþingis en þar kemur fram að forsjáraðilar telji í einhverjum tilvikum hafa skort þjónustu við börnin á fyrri stigum og aðstoð við foreldra þannig að vandi barnanna hafi stöðugt vaxið fram að unglingsárum sem hafi að endingu leitt til þess að vista þurfi börnin utan heimilis.
Barna- og fjölskyldustofa hefur fækkað verulega eigin meðferðarúrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda og samkvæmt skýrslu stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu frá 2021, um stöðu barna með fjölþættan vanda, hefur það valdið kerfislægum vanda. Með þessu hafi ábyrgð á þjónustu við þennan hóp lagst á herðar sveitarfélaga. Viðeigandi úrræði hafi ekki alltaf verið tiltæk innan þeirra og þeim því nauðugur sá kostur að mæta þörfinni með öðrum hætti, s.s. með því að kaupa búsetuþjónustu af einkareknum úrræðum á borð við Klettabæ.
Tryggja þarf skipulag, mönnun og fjármögnun úrræða yfir sumartíma þannig að ekki komi til lokunar.
Umboðsmaður barna hefur gert athugasemdir við það að þau úrræði sem enn standa til boða eins og meðferðardeild Stuðla loki yfir sumartímann. Þann 16. maí síðastliðinn sendi embætti umboðsmanns barna bréf til mennta- og barnamálaráðherra vegna fyrirhugaðrar lokunar meðferðardeildar Stuðla frá 12. júlí til 8. ágúst. Ráðherra hafði þá lýst því yfir að af slíkri lokun myndi ekki verða í umfjöllun á Alþingi og tók þar fram að Stuðlar og önnur slík úrræði geti ekki farið í sumarfrí. Í svari ráðuneytisins til umboðsmanns barna kemur fram að ákvörðun Barna- og fjölskyldustofu um að loka Stuðlum sé tekin með hagsmuni barna að leiðarljósi, þar sem betra sé að loka en að veita skerta þjónustu yfir sumartímann. Að mati umboðsmanns barna er mikilvægt að mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við Barna- og fjölskyldustofu tryggi að skipulag, mönnun og fjármögnun verði framvegis með þeim hætti að ekki þurfi að loka úrræðum eins og meðferðardeild Stuðla yfir sumartímann enda er það börnum fyrir bestu að hafa aðgang að mikilvægri þjónustu sem þau þurfa á að halda. Þá hefur umboðsmaður barna einnig fengið upplýsingar um það að Lækjarbakki sé lokaður vegna myglu.
Í skýrslum umboðsmanns Alþingis kemur fram að dæmi séu um núning milli ólíkra kerfa innan málaflokksins. Umboðsmaður barna fær reglulega erindi þar sem foreldrar lýsa því að börn með fjölþættan vanda lendi á milli kerfa og fái hvorki fullnægjandi þjónustu innan barnaverndarkerfisins né heilbrigðiskerfisins, þrátt fyrir að vera í miklum vanda. Það er mikilvægt að þessi mismunandi kerfi sameinist í því að tryggja að börn geti fengið þann stuðning sem þau þarfnast hverju sinni í samræmi við lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna nr. 86/2021.
Brýnt að stjórnvöld fylgi eftir breytingum.
Stjórnvöld
hafa endurtekið boðað breytingar og að gripið verði til aðgerða til þess að
bæta þjónustu við börn með fjölþættan vanda, það hefur m.a. verið gert í
framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2017-2018, framkvæmdaáætlun 2019-2022 og
framkvæmdaáætlun 2023-2027, en þau áform hafa því miður ekki raungerst með
fullnægjandi hætti. Það er brýnt að stjórnvöld fylgi eftir þeim breytingum sem
boðaðar hafa verið og tryggi að börn með fjölþættan vanda fái notið réttinda
sinna og að þau hafi aðgang að þjónustu og viðeigandi úrræðum þvert á kerfi.
Ítarefni...
- Skýrslur umboðsmanns Alþingis - faglært starfsfólk og eftirlit skortir með tveimur einkareknum úrræðum fyrir börn
- Skýrsla stjórnenda í barnavernd á höfuðborgarsvæðinu frá 2021, um stöðu barna með fjölþættan vanda
- Framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar 2017 - 2018
- Framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar 2019 - 2022
- Framkvæmdaráætlun á sviði barnaverndar 2023 - 2027