Skýrsla umboðsmanns Alþingis um Flatahraun
Umboðsmaður Alþingis hefur gefið út skýrslu um neyðarvistun barna á Flatahrauni.
Umboðsmaður Alþingis hefur gefið út skýrslu um neyðarvistun barna í fangeymslum lögreglustöðvarinnar á Flatahrauni sem starfrækt er af Barna- og fjölskyldustofu. Umboðsmaður heimsótti úrræðið á grundvelli OPCAT eftirlits, sem ætlað er að hindra pyndingar eða aðra grimmilega, ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu á stöðum þar sem frelsissviptir dvelja.
Margt af því sem kemur fram í skýrslunni varpar ljósi á það að með rekstri úrræðisins sé brotið gróflega gegn réttindum barna. Í skýrslunni kemur m.a. fram að það sé mat umboðsmanns Alþingis að úrræðið henti ekki sem vistunarstaður fyrir börn og beinir hann þeim tilmælum til Barna- og fjölskyldustofu að endurskoða notkun úrræðisins. Þá kemur fram að allur aðbúnaður og umhverfi þar hafi yfirbragð hefðbundinnar fangageymslu sem er sérútbúið fyrir vistun fullorðinna einstaklinga við hátt öryggisstig. Ekki séu gluggar í klefum sem hleypi dagsbirtu inn og ekki aðstaða til útiveru. Aðstæður í Flatahrauni séu, með tilliti til ýmissa annarra þátta, því til þess fallnar að auka enn frekar á íþyngjandi áhrif vistunar í Flatahrauni. Þá er einnig fjallað sérstaklega um það í skýrslunni að í meirihluta tilvika sé um einangrunarvist að ræða, sem er börnum mjög þungbær og skaðlegar og að í fjölþjóðlegum viðmiðum sé lögð áhersla á börn skuli ekki sæta einangrun undir neinum kringumstæðum.
Umboðsmaður barna hefur ítrekað
lýst yfir þeirri skýru afstöðu sinni að notkun úrræðisins brjóti gegn
grundvallarréttindum barna. Ítrekar embættið því enn frekar þá afstöðu sína að
mennta- og barnamálaráðherra grípi til tafarlausra ráðstafana til þess að þessu
úrræði fyrir börn verði lokað.
Nálgast má skýrslu umboðsmanns Alþingis hér að neðan:
https://www.umbodsmadur.is/frettir/nanar/9516/fangageymsla-logreglu-hentar-ekki-sem-urraedi-fyrir-neydarvistud-born