Skýrsla barnaþings 2022 afhent ráðherrum
Fulltrúar úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna afhentu ráðherrum ríkisstjórnarinnar skýrslu barnaþings 2022 en í henni eru að finna helstu niðurstöður frá þinginu sem haldið var í mars síðastliðinn. Afhending fór fram á ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum.
Í skýrslunni birtast helstu niðurstöður barnaþingsins en barnaþingmenn unnu í sameiningu að því að finna nýjar leiðir og lausnir á fjölbreyttum viðfangsefnum, í þetta sinn völdu barnaþingmenn að einblína á mannréttindi, menntun og umhverfis- og loftslagsmál. Fram að næsta barnaþingi mun embætti umboðsmanns barna vinna að því mikilvæga verkefni að koma tillögum barnaþingmanna á framfæri og í framkvæmd.
Við afhendingu skýrslunnar lögðu fulltrúar ráðgjafarhópsins áherslu á að börn hafi skoðanir á samfélagslegum málefnum, á sama hátt og fullorðnir, og að mikilvægt sé að fullorðnir hlusti á þau og taki mark á því sem þau hafa fram að færa.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra sagði við afhendinguna að hún fagni því að skýrsla barnaþings sé fram komin, en ráðherra sagði jafnframt að í umræðum á Alþingi á síðustu mánuðum hafi iðulega verið vitnað í umræður á barnaþingi sem þingmenn allra flokka tóku þátt í. Einnig sagðist Katrín ætla að beita sér fyrir því að sérstök umræða fari fram á þinginu um niðurstöður barnaþings og tillögur barnaþingmanna.
Ég vil þakka barnaþingmönnum sérstaklega fyrir þeirra mikilvæga framlag og fyrir að láta sig varða samfélagsleg málefni. Þau hafa sýnt í verki að börn vilja vera virkir þátttakendur í samfélagsumræðu og leggja sitt af mörkum til þess að hafa áhrif á samfélagið og skapa jöfn tækifæri og betri framtíð fyrir öll börn á Íslandi
Segir Salvör Nordal, umboðsmaður barna