24. maí 2012

,,Skylda fullorðinna að efla börn í því að vera virkir þjóðfélagsþegnar” - Viðtal við Margréti Maríu

Nýlega birtist í Kópavogsblaðinu viðtal við Margréti Maríu Sigurðardóttur umboðsmann barna.

,,Skylda fullorðinna að efla börn í því að vera virkir þjóðfélagsþegnar”
-         segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna

Hjá umboðsmanni barna er mikið að gera þessa dagana enda stendur nú yfir annarsamasti tími ársins. Starfsfólk embættisins leggst á eitt við að halda öllum boltum á lofti og leysa þau mál sem berast. Kópavogsblaðið leit við hjá umboðsmanni barna, Margréti Maríu Sigurðardóttur, sem er Kópavogsbúi, og forvitnaðist um embættið en vinnustaðurinn er hlýlegur og býður mann velkominn.

„Við leggjum okkur fram um að taka vel á móti öllum sem hingað leita en börn eru sérstaklega boðin velkomin,“ segir Margrét María. „Flestar myndir á veggjum eru eftir börn enda er það markmið okkar að hampa barnamenningu og að hafa umhverfið heimilislegt. Þegar börn leita til okkar, en þau gera það oftast með tölvupósti, njóta þau forgangs, þeir fullorðnu geta frekar beðið eftir afgreiðslu.  Þessu er nú oftast öðruvísi farið í samfélaginu þar sem börn eru t.d. gjarnan afgreidd á eftir fullorðnum í verslunum.”
 
Foreldrahlutverkið 
Margréti Maríu er mjög umhugað um foreldrahlutverkið og þá skyldu foreldra til að sinna því að alúð. „Mér finnst mikilvægt að foreldrar átti sig á því að börn eiga rétt á því að eiga góða foreldra og við eigum að leggja okkur fram um að vera eins góðir foreldrar og mögulegt er. Foreldrar verða að sýna myndugleika í þessu hlutverki  og hafa skilning á því að þetta er þeirra mikilvægasta verkefni í lífinu og alls ekki eitthvað sem hægt er að  sinna með hálfum hug. Mér finnst einnig að foreldrar eigi að ræða við börn sín um það hvaða kosti þeim þyki mikilvægastir í fari foreldra og hvað má bæta hjá þeim. Umræðan á heimilunum á ekki bara að vera um hvernig börnin eiga að hegða sér heldur líka hvað börnum finnst um hegðun hinna fullorðnu. Börn eiga rétt á að tjá sig í öllum málum sem þau varða og það er skylda hinna fullorðnu að taka tillit til þess sem þau segja.  Það á einnig við hvernig foreldar eru að standa sig gagnvart börnum sínum.”
 
Einnig finnst mér að samfélagið allt þurfi að gera sér grein fyrir því að við berum sameiginlega öll ábyrgð á öllum börnum. Oft er sagt að það þurfi heilt þorp til að ala upp barn og það lýsir afstöðu minni mjög vel. Það er ekkert til neitt sem heitir annarra manna börn.  Börnin eru okkar allra.  Barnæskan er afar sérstakt og þýðingarmikið tímabil í lífi hvers einstaklings. Þau börn sem fá ást, umhyggju,  hvatningu, hrós, aðhald og síðast en ekki síst virðingu í barnæsku eru líklegri til að vegna vel á lífsleiðinni. Þá er mikilvægt að hafa í huga að því að við erum öll fyrirmyndir barna og það er okkar að ákveða hvernig fyrirmyndir við viljum vera. Tölum við t.d. um annað fólk af virðingu? Leggjum við okkar af mörkum til samfélagsins og fylgjum við reglum þess? Ef við gerum það er líklegra að börnin í kring um okkur tileinki sér góð samskipti og öðlist skilning á því að öllum réttindum fylgja skyldur, bæði lagalegar og siðferðislegar o.s.frv. Við þurfum öll að vanda okkur, viðurkenna mistök okkar, leita aðstoðar þegar þess er þörf og reyna að bæta okkur hvern einasta dag.”

Margrét María segir að það séu jafnan mörg málefni sem brenna á embættinu en það sem er alltaf ofarlega á baugi er skylda fullorðinna til að efla börn í því að vera virkir þjóðfélagsþegnar.
 
-         Hvernig eflum við börn í lýðræðislegum vinnubrögðum og styðjum  þau í því að verða sjálfstæðir og ábyrgir einstaklingar?
 
,,Okkur ber að sjá til þess að sjálfræði og þátttaka barna í að stjórna eigin lífi aukist eftir því sem þau vaxa og þroskast.  Börn verða  lögráða á Íslandi við 18 ára aldur og það væri óeðlilegt að ætlast til þess að við umræddan afmælisdag sé barn tilbúið til að bera fullkomna ábyrgð á eigin lífi ef þessu hefur ekki verið sinnt.”
 
-         Sagt er að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé grunnurinn að flestu sem embættið beitir sér fyrir og notar til að rökstyðja mál sitt. Er það rétt?
 
,,Boðskap sáttmálans má draga saman í þrjú orð: Virða skal börn!” segir Margrét María. ,,Einkunnarorð sáttmálans eru vernd og umönnun og þátttaka. Fullorðnir eiga ekki í erfiðleikum með að samþykkja það að börn eiga rétt á vernd og umönnun en reynslan sýnir að þátttaka barna í samfélaginu stendur oft í fullorðna fólkinu. Þar er veruleg þörf á viðhorfsbreytingu. Andi sáttmálans er að þessu leiti mjög byltingarkenndur en börn eru samkvæmt honum virkir þátttakendur í samfélaginu og eiga réttindi sem eru óháð foreldrum þeirra,” segir Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna sem óskar öllum börnum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica