10. apríl 2014

Skilaboð frá börnum alkóhólista

Í dag, 10. apríl 2014, funduðu börn alkóhólista, sem skipa sérfræðihóp umboðsmanns barna, með ráðherrum til að koma skilaboðum sínum á framfæri. Umboðsmaður barna vann verkefnið í samstarfi við SÁÁ en tilgangur þess var að ná fram röddum þeirra barna sem búa við alkóhólisma og heyra frá þeim hvað við sem samfélag getum gert til að bæta líf þeirra barna sem búa við þennan vanda.

„Við erum ekki vandamálið en við glímum við það!“

Í dag, 10. apríl 2014, funduðu börn alkóhólista, sem skipa sérfræðihóp umboðsmanns barna, með Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra og Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra og komu skilaboðum sínum á framfæri. 

Ofneysla áfengis- og vímuefna er vandamál sem snertir líf margra barna. Áætlað er að það séu yfir 20.000 börn á Íslandi sem alast upp við alkóhólisma, þ.e. búa með eða eiga að minnsta kosti einn náinn fjölskyldumeðlim sem er alkóhólisti. Oft ríkir mikil þöggun um neyslu innan veggja heimilisins og eru börn alkóhólista því oft falinn hópur. Þessi börn upplifa gjarnan mikla skömm og halda að þau ein búi við slíkt vandamál.  

Umboðsmaður barna taldi mikilvægt að ná fram röddum barna sem búa við áfengis- og vímuefnavanda og leitað því eftir samstarfi við SÁÁ. Komið var á fót sérfræðihópi barna sem öll eiga það sameiginlegt að eiga foreldri sem glímir við alkóhólisma. Vinna hópsins hefur staðið yfir í nokkra mánuði og höfðu börnin margt að segja sem þau vildu koma á framfæri.  Því var ákveðið gefa út skilaboð barna alkóhólista annars vegar til fjölskyldu og hins vegar til fagfólks.

Sérfræðihópurinn taldi mikilvægt að skilaboðum þeirra yrði komið á framfæri við ráðamenn. Því var ákveðið að boða ráðherra velferðarmála á fund þar sem fulltrúar sérfræðihópsins afhentu þeim skilaboðin. Skilaboð barnanna verða síðan meðal annars send í alla skóla og á heilsugæslustöðvar. Það er von umboðsmanns barna að þessi skilaboð muni nýtast því fagfólki sem starfa með börnum, fjölskyldum þeirra barna sem búa við alkóhólisma sem og öðrum í samfélaginu.  

„Ráðherrar virtust skilja vandamálið mjög vel og hlustuðu vel á okkur“ sagði 17 ára stúlka úr hópnum. „Ég vona að þetta verði til þess að opna umræðuna og að krakkar þurfi alls ekki að skammast sín fyrir þetta vandamál“.

„Þetta var bara fjör“ sagði 17 ára drengur um fundinn með ráðherra. „Ég vonast bara til þess að þetta hafi þau áhrif að það verði eitthvað gert í þessum málum“.

Börn eru sérfræðingar í því að vera börn og hafa þekkingu á þeim aðstæðum sem þau búa við. Börn alkóhólista eru fyrst og fremst venjuleg börn en eiga það sameiginlegt að hafa upplifað óvissu og álag í tengslum við mikla áfengis- eða vímuefnaneyslu foreldra. Slíkt getur haft margvíslegar tilfinningalegar og félagslegar afleiðingar í för með sér og markað líf þessara barna til framtíðar. Er því ljóst að börn verða fyrir miklum áhrifum vegna neyslu foreldra, eða eins og eitt barn í hópnum orðaði það: „Við erum ekki vandamálið en við glímum við það“.

Eitt af skilaboðum barnanna til fjölskyldna er að: „Hátíðir og frí valda oft kvíða“. Brýnt er að koma þessum skilaboðum á framfæri, ekki síst í ljósi þess að nú er páskafríið að skella á. Þó að frí séu tilhlökkunarefni hjá flestum börnum hafa þau oft neikvæð áhrif á líðan barna sem búa við alkóhólisma.

 

Skilaboð frá börnum alkóhólista

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica