14. mars 2024

Samvera ofarlega í huga barna

Í kjölfar fundar með börnum frá Grindavík sendi umboðsmaður barna bréf til ríkisstjórnar Íslands og bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar um mál sem eru ofarlega í huga grindvískra barna.

Í bréfi umboðsmanns, sem dagsett er 13. mars, koma fram helstu áhersluatriði fundarins en embættið mun á komandi vikum vinna úr niðurstöðunum betur og gefa út í skýrslu sem afhent verður stjórnvöldum. 

Bréf umboðsmanns barna til ríkisstjórnar Íslands og bæjarstjórnar Grindavíkurbæjar

Efni: Fundur umboðsmanns barna með börnum úr Grindavík

Umboðsmaður barna bauð börnum frá Grindavík til fundar í Laugardalshöll þann 7. mars sl. Markmið fundarins var að veita grindvískum börnum tækifæri til að koma upplifun sinni og sjónarmiðum á framfæri, í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans, vegna þeirra náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Reykjanesi undanfarin misseri og ekki sér fyrir endann á. Viðburðurinn var skipulagður í samvinnu við Grindavíkurbæ og var öllum börnum á grunn- og framhaldsskólaaldri boðið til þátttöku. Fundurinn var mjög vel sóttur og mættu yfir 300 börn, sem unnu að tillögum og skilaboðum til stjórnvalda.

Á fundinum kom berlega í ljós að áhrif þessara atburða á líf grindvískra barna hafa verið margvísleg og ljóst er að ástandið hefur haft í för með sér mikla óvissu fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Í tillögum barnanna komu fram ýmis áhersluatriði, einkum varðandi skóla- og íþróttastarf, tómstundir, húsnæðismál og stuðning fyrir fjölskyldur. Þá birtist með margvíslegum hætti sú ósk barnanna að þeim verði veitt fleiri tækifæri til samveru og að styrkja tengsl sín á milli.

Embættið mun á komandi vikum greina niðurstöður fundarins ítarlega og fylgja tillögum barnanna eftir með útgáfu skýrslu sem afhent verður stjórnvöldum. Í millitíðinni telur umboðsmaður barna þó nauðsynlegt að koma á framfæri helstu áhersluatriðum barnanna sem ljóst var að stóðu upp úr á fundinum.

Skólamál

Lögð var rík áhersla á það meðal barnanna að fundin verði langtímalausn á skólamálum þar sem öllum börnum úr Grindavík standi til boða að vera saman í safnskóla. Safnskólar séu of dreifðir og bæta þurfi fyrirkomulag rútuferða og skólasunds, auk þess að tryggja þurfi aðgengi að vinnuskóla í sumar. Einnig töldu börnin mikilvægt að skipulagið varðandi næsta skólaár verði skýrt og fyrirsjáanlegt. Óskir komu fram um meira uppbrot á skólatíma, svo sem með íþróttum og smiðjum og fleiri heimsóknardögum í safnskóla. Þá var sérstaklega kvartað yfir aðstöðu í safnskólanum í Ármúla, einkum skorti á þrifum og ófullnægjandi salernisaðstöðu.

Íþróttastarf, tómstundir og samvera

Á fundinum kom fram að börnunum þyki mjög mikilvægt að geta iðkað íþróttir með sínu íþróttaliði úr Grindavík. Þau vilja að áframhaldandi íþróttastarf UMFG verði tryggt og að börn séu studd sérstaklega til íþróttaiðkunar með sínu liði. Þá þurfi einnig að tryggja aðgang grindvískra barna að frístundastarfi á sumrin, t.d. með sérstökum leikjanámskeiðum eða sumarbúðum og betra aðgengi að fjölbreyttri afþreyingu. Fram komu hugmyndir um sérstaka félagsmiðstöð fyrir börn úr Grindavík. Rík áhersla var lögð á aukna samveru í ýmsu formi og að skipulagðir verði reglulegir viðburðir fyrir börnin, m.a. í því skyni að þau haldi sínum vinatengslum.

Húsnæðismál og uppbygging í Grindavík

Fram komu þungar áhyggjur af framtíð Grindavíkur og létu börnin í ljós eindreginn vilja sinn til þess að uppbygging eigi sér stað eins fljótt og auðið er, og að varnargarðar verði byggðir. Tryggja þurfi öllum fjölskyldum framtíðarhúsnæði og þann stuðning sem nauðsynlegur er til þess að takast á við þá stöðu sem nú blasir við.

Annað

Börnin telja mikilvægt að stórfjölskyldum verði gert kleift að vera saman og ljóst er að mörg börn upplifa sáran söknuð. Fram kom að börnin sakna Grindvíkur og lífsins þar, en einnig vina sinna og ættingja. Þá lýstu börnin miklum áhuga á að heimsækja bæinn sinn, enda hefur bærinn að mestu verið lokaður börnum frá 10. nóvember sl. Áhersla var á að tryggja þurfi öllum sálrænan stuðning til þess að vinna úr þeim áföllum sem hamfarirnar hafa haft í för með sér. Einnig var skýrt ákall um betri upplýsingagjöf til barna og kom m.a. fram tillaga um sérstaka íbúafundi fyrir börn og ungmenni.

Umboðsmaður barna óskar þess að tillögur barnanna verði teknar til umfjöllunar sem fyrst og að brugðist verði við þeim áherslum sem fram hafa komið. Mikilvægt er að stjórnvöld taki mið af sjónarmiðum barnanna við alla stefnumótun og ákvarðanatöku sem framundan er og tryggi réttindi þeirra í samræmi við ákvæði Barnasáttmálann.

Þá vill embættið jafnframt koma sérstökum þökkum á framfæri til allra þeirra sem tóku þátt í deginum, til forsætisráðherra sem heimsótti fundinn í lok hans og síðast en ekki síst starfsfólki Grindavíkurbæjar sem veittu ómælda aðstoð við að gera börnum úr Grindvík kleift að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.




Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica