13. ágúst 2012

Samþykki lögheimilsforeldris á breytingu á lögheimili barna

Mögulegt er að flytja lögheimili barns án samþykkis þess foreldris sem barnið á lögheimili hjá. Flutningur lögheimilis barns án samþykkis fer þó aldrei fram án undanfarandi könnunar Þjóðskrár Íslands á því hvar barn hafi fasta búsetu.

Umboðsmanni berast á ári hverju margar fyrirspurnir varðandi lögheimili barna og hvernig því skuli háttað eftir skilnað eða sambúðarslit. Einnig lúta erindin að því hvernig hægt er að breyta lögheimili barns þegar foreldrar búa ekki saman. Í barnalögum nr. 76/2003 eða lögum um lögheimili nr. 21/1990 er ekki að finna reglur sem segja til um hvernig staðið skuli að lögheimilisflutningi barns þegar foreldrar fara sameiginlega með forsjá eftir skilnað eða sambúðarslit.

Umboðsmanni barst erindi þar sem það foreldri, sem barn hafði ekki lögheimili hjá, krafðist þess að lögheimili barnsins yrði fært til sín en lögheimilisforeldri mótmælti. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fengust féllst Þjóðskrá á að færa lögheimili barnsins til hins foreldrisins þvert á mótmæli lögheimilisforeldris. Umboðsmaður barna taldi að framkvæmdin væri sú að lögheimilisforeldri þyrfti ávallt að samþykkja slíkan flutning. Þegar umboðsmaður leitaði svara hjá Þjóðskrá um það hvort samþykki lögheimilisforeldris sé nauðsynlegt þegar lögheimili barns er fært fékk hann mismunandi svör. Annars vegar fengust þau svör að lögheimilisforeldri þyrfti alltaf að samþykkja lögheimilisflutning barns og hins vegar að Þjóðskrá gæti tekið ákvörðun um flutning lögheimilis ef barnið hefði fasta búsetu hjá því foreldri sem það ætti ekki lögheimili hjá og skiptu mótmæli lögheimilisforeldris engu máli í því sambandi.

Af þessu tilefni sendi umboðsmaður barna bréf til Þjóðskrá og óskaði umboðsmaður svara við því hvort mögulegt væri að færa lögheimili barns án samþykkis lögheimilisforeldris og ef svo er, hvaða kröfur væru gerðar í þeim efnum. Í svari sem barst frá Þjóðskrá var það staðfest að mögulegt er að flytja lögheimili barns án samþykkis þess foreldris sem barnið á lögheimili hjá. Flutningur lögheimilis barns án samþykkis fer þó aldrei fram án undanfarandi könnunar Þjóðskrár Íslands á því hvar barn hafi fasta búsetu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica