28. maí 2018

Samstarf Hagstofu Íslands og umboðsmanns barna - fréttatilkynning

Umboðsmaður barna leitaði síðastliðið haust eftir samstarfi við Hagstofuna um að teknar væru saman hagtölur sem snerta sérstaklega stöðu barna í íslensku samfélagi. Yfirlýsing þess efnis var undirrituð fyrr í dag.

Samstarf Hagstofu Íslands og Umboðsmanns barna: Hagstofan birtir hagtölur um börn

 Umboðsmaður barna leitaði síðastliðið haust eftir samstarfi við Hagstofuna um að teknar væru saman  hagtölur sem snerta sérstaklega stöðu barna í íslensku samfélagi. Hagstofan hefur á síðustu mánuðum safnað þeim upplýsingum saman og birtir þær nú á vef sínum, https://www.hagstofa.is. Þar má meðal annars finna tölur um fjölda starfandi barna á íslenskum vinnumarkaði, upplýsingar um fjölda barna sem sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi, komur barna til læknis auk ítarlegra upplýsinga um skráða nemendur í grunnskóla og leikskóla.

Fyrtaarn Paa Island Yadid Levy

Mynd: Yadid Levy / Norden.org

 Mikill fengur er að birtingu þessara gagna enda leggja vandaðar tölulegar upplýsingar mikilvægan grunn að stefnumótun í málefnum barna en tilfinnanlega hefur skort á að slíkar upplýsingar séu aðgengilegar.

 Umboðsmaður barna og hagstofustjóri binda vonir við að með birtingu gagnanna sé einungis stigið fyrsta skrefið í frekara samstarfi á næstu misserum. Meta þarf hvort auka þurfi skipulega söfnun Hagstofunnar á einhverjum sviðum og eins skoða hvort ástæða sé til að safna á einn stað gögnum annarra stofnana sem varða börn. Loks er stefnt að því að upplýsingarnar verði birtar með aðgengilegum hætti á vef umboðsmanns barna á næstunni.

 Hagstofan Ub Undirritun Yfirlysingar

Mynd: við undirritun fyrr í dag

 

Fyrr í dag undirrituðu Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri og Salvör Nordal, umboðsmaður barna yfirlýsingu um vilja sinn til áframhaldandi samstarf á þessu sviði. Yfirlýsingin er birt hér í heild sinni.

  

Yfirlýsing um samstarf

Hagstofu Íslands og Umboðsmanns barna

 

 

Með birtingu Hagstofunnar á tölfræði um börn sjá https://www.hagstofa.is er fyrsta skrefið stigið í samstarfi milli Hagstofu Íslands og umboðsmanns barna. Embættin lýsa hér með yfir vilja sínum til að halda verkefninu áfram á næstu misserum og beita sér fyrir því að sérstakt markmið verði sett í fjármálaáætlun þar að lútandi.

 

Verkefnið mun m.a. felast í að meta hvort auka þurfi skipulega söfnun Hagstofunnar á einhverjum sviðum sem varða börn og skoðað hvort ástæða er til að safna betur saman á einn stað gögnum annarra stofnana. Þá er stefnt að því að upplýsingarnar verði birtar með aðgengilegum hætti á vefsíðu umboðsmanns barna.

 

 

 

Reykjavík, 28. maí 2018

 

Ólafur Hjálmarsson, 

hagstofustjóri 

 

Salvör Nordal, 

umboðsmaður barna

 

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica