17. maí 2019

Samstarf félag- og barnamálaráðherra og umboðsmann barna á afmælisári Barnasáttmálans

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, skrifuðu í dag undir yfirlýsingu um aukið samstarf á árinu er varðar málefni barna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Salvör Nordal, umboðsmaður barna, skrifuðu í dag undir yfirlýsingu um aukið samstarf á árinu er varðar málefni barna. 

Með samkomulaginu tekur embætti umboðsmanns barna að sér að móta tillögur um breytt verklag með aukinni áherslu á börn. Markmiðið er að efla samráð við börn, samanber samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 1. mars síðastliðnum, þar sem fallist var á tillögur félags- og barnamálaráðherra um aukna þátttöku barna og ungmenna við stefnumótun. Með samþykktinni var einnig stigið mikið framfaraskref í þeim skilningi að nú liggur fyrir vilji ríkisstjórnarinnar þess efnis að allar stórar ákvarðanatökur sem og lagafrumvörp sem varða börn með einum eða öðrum hætti skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna. Tillögurnar verða unnar í samvinnu við ráðgjafahóp umboðsmanns barna sem og stýrihóp Stjórnarráðsins í málefnum barna.

Auk þess miðar samkomulagið að því að styrkja aðkomu félags- og barnamálaráðherra að barnaþingi sem umboðsmaður barna stendur fyrir síðar á þessu ári. Með samkomulaginu veitir ráðherra embættinu styrk sem skal meðal annars nýttur til að tryggja þátttöku barna sem þurfa stuðning við að sækja barnaþingið, til dæmis í tengslum við aðgengi, túlkaþjónustu eða annars konar sérfræðiþjónustu.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica