Samræmd viðbrögð vegna kórónuveirunnar
Framundan er afnám ýmissa takmarkana sem geta haft mikil áhrif á líðan og hagi barna og ungmenna í íslensku samfélagi. Umboðsmaður sendi bréf til forsætisráðuneytisins þar sem bent var á nauðsyn þess að stuðla að samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og fjölskyldna.
Bréf umboðsmanns barna til forsætisráðuneytisins í heild sinni.
Í bréfinu kemur meðal annars fram:
Mikilvægt er að upplýsinga sé aflað um aðstæður, heilsu og líðan barna í íslensku samfélagi í kjölfar faraldursins, þannig að unnt sé að bregðast tímanlega við og tryggja þannig rétt barna til viðunandi þjónustu og góðra uppeldisaðstæðna. Á heimasíðu Stjórnarráðsins kemur fram að ríkisstjórnin hafi ráðstafað fjármagni til að framkvæma rannsókn á líðan þjóðarinnar á tímum COVID-19, en þar kemur fram að markmiðið sé að meta líðan og lífsgæði þjóðarinnar og möguleg áhrif faraldursins á heilsufar til lengri tíma. Umrædd rannsókn tekur hins vegar eingöngu til einstaklinga 18 ára og eldri og mun því ekki gefa neinar vísbendingar um líðan og lífsgæði barna og ungmenna, sem hafa sætt umtalsverðum takmörkunum og orðið fyrir mikilli röskun á högum og daglegu lífi. Í fréttatilkynningu um rannsóknina kemur fram að væntingar séu um að niðurstöður hennar veiti upplýsingar sem munu nýtast við stefnumótun og forgangsröðun verkefna, en brýnt er afla sambærilegra upplýsinga um aðstæður og líðan barna. Vera má að þær kannanir sem framkvæmdar eru reglulega meðal íslenskra barna geti leitt þetta í ljós með fullnægjandi hætti, en að mati umboðsmanns barna er þó fullt tilefni til þess að kalla rannsakendur á þessu sviði til samráðs, um þau gögn sem afla þarf til þess að fá viðunandi yfirlit yfir stöðu barna, hvort tilefni sé til að ráðast í sambærilega rannsókn meðal barna eða afla upplýsinga um stöðu barna með öðrum hætti.