Samráðsfundur með ungmennum
Í gær hélt forsætisráðuneytið, í samstarfi við umboðsmann barna, samráðsfund með ungmennum um stöðu mannréttinda og hatursorðræðu.
Til fundarins mættu auk fulltrúa ráðuneytisins ungmenni úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna, Ungmennaráði heimsmarkmiðanna og ungmennaráði Samtakanna ´78. Fundurinn var liður í vinnu starfshóps ráðuneytisins um hatursorðræðu en niðurstöður hans verða einnig nýttar í vinnu við gerð Grænbókar um mannréttindi.
Á fundinum áttu sér stað líflegar umræður um mannréttindi, hatursorðræðu og stöðu tiltekinna þjóðfélagshópa, með áherslu á samráð, samstarf og leiðir til lausna. Fundurinn var haldinn í húsakynnum embættis umboðsmanns barna í Borgartúni.