4. maí 2019

Réttindi barna í stafrænu umhverfi - barnaréttarnefnd kallar eftir athugasemdum

Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fer með eftirlit með Barnasáttmálanum, hyggst gefa út almenna athugasemd um réttindi barna í stafrænu umhverfi. Hún hefur af því tilefni kallað eftir athugasemdum frá öllum sem vilja láta málið til sín taka

Umboðsmaður barna vill vekja athygli á því að barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna, sem fer með eftirlit með Barnasáttmálanum, hyggst gefa út almenna athugasemd um réttindi barna í stafrænu umhverfi (e. general comment regarding children‘s rights in relation to the digital environment).

Barnaréttarnefndin hefur af því tilefni kallað eftir athugasemdum frá öllum sem vilja láta málið til sín taka  og koma á framfæri ábendingum til nefndarinnar varðandi réttindi barna í stafrænu umhverfi. Barnaréttarnefndin mun leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði:

  • Athugasemdir varðandi undirbúningsskjal nefndarinnar (e. concept note) sem hægt er að finna á hlekk neðst á þessari síðu hér.
  • Tillögur að öðrum atriðum en koma fram í undirbúningsskjali nefndarinnar.
  • Tillögur um afmörkun gildissviðs  almennu athugasemdarinnar.
  • Tillögur að framsetningu  almennu athugasemdarinnar.
  • Almennar ráðstafanir er varða innleiðingu aðildarríkja á réttindum barna í stafrænu umhverfi.

Barnaréttarnefndin hvetur sérstaklega aðila sem búa yfir þekkingu, hafa stundað rannsóknir á þessu sviði, búa yfir niðurstöðum úr samráði við börn um málefnið eða góðum fyrirmyndum, til dæmis á sviði löggjafar eða stefnumótunar, að senda nefndinni athugasemdir sínar.

Almennar athugasemdir barnaréttarnefndarinnar eru afar mikilvægar fyrir túlkun á Barnasáttmálanum og þróun hans en heimild barnaréttarnefndarinnar til að gefa út almennar athugasemdir byggir á d-lið 45. gr. Barnasáttmálans.

Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 15. maí nk. á netfangið crc@ohcrc.org.

  • Athugasemdir til nefndarinnar verða að vera á ensku, frönsku eða spænsku.
  • Athugasemdirnar mega ekki vera lengri en 6 bls.
  • Athugasemdirnar eiga að vera settar upp í word skjal.
  • Athugasemdirnar eiga að innihalda stuttar upplýsingar um sendanda (t.d. einstaklingur eða samtök).
  • Athugasemdirnar verða birtar á heimasíðu barnaréttarnefndarinnar og í samhengi við almennu athugasemdina um réttindi barna í stafrænu umhverfi.

Hér á vefsíðu barnaréttarnefndarinnar má finna nánari upplýsingar. 

 

Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org

Mynd: Benjamin Suomela / Norden.org


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica