20. nóvember 2012

Reglur um börn í sundi

Nýlega var reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 breytt. Fjallað var um helstu breytingarnar í frétt dags. 4. október 2012. Umboðsmaður barna mælir með því að foreldrar og þeir sem starfa með börnum kynni sér þær reglur sem gilda um sundstaði (þ.m.t. skólasund).

Nýlega var reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum nr. 814/2010 breytt. Fjallað var um helstu breytingarnar í frétt dags. 4. október 2012. Umboðsmaður barna mælir með því að foreldrar og þeir sem starfa með börnum kynni sér þær reglur sem gilda um sundstaði (þ.m.t. skólasund). Eftir breytingarnar orðast 14. gr. svo:

Börnum sem ekki hafa náð 10 ára aldri, sbr. 4. ml., er óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingi 15 ára eða eldri. Þeim sem er 15 ára og eldri er óheimilt að hafa fleiri en tvö börn með sér yngri en 10 ára, sbr. 4. ml., nema um sé að ræða foreldri eða þann sem fer með forsjá barnanna lögum samkvæmt. Ber viðkomandi að gæta í hvívetna að öryggi þeirra barna sem eru með honum á meðan þau eru í eða við laug. Ákvæði 1. og 2. ml. hvað varðar 10 ára aldursmörk gilda til 1. júní það ár sem barnið verður 10 ára.

Um sundkennslu fer samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Dýpi þess svæðis laugar sem notað er við sundkennslu yngri barna en 8 ára og ósyndra skal vera á bilinu 0,70-1,05 m.

Þar sem hópar barna undir 10 ára aldri eru saman komnir skulu ekki fleiri en 15 börn vera í umsjá hvers kennara eða ábyrgðarmanns hóps sem, ásamt laugarverði, er ábyrgur fyrir hópnum. Miða skal við að þeir sem starfa með eða hafa umsjón með börnum og ungmennum í æskulýðsstarfi séu lögráða og hafi þjálfun, menntun, þekkingu eða reynslu til starfsins, sbr. 1. mgr. 10. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007. Til að auðvelda kennara eða ábyrgðarmanni hópa að fylgjast með hverju barni skulu hópar barna sérstaklega auðkenndir með áberandi lit á sundhettum, armböndum, vestum eða á annan sambærilegan hátt. Fyllsta öryggis skal gætt þegar komið er með hóp af börnum og unglingum í sund. Kennarar og ábyrgðarmenn hópa skulu kynna sér reglur sund- og baðstaða og aðstoða starfsfólk sund- og baðstaða við gæslu.

Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu ávallt gæta þess í samvinnu við starfs­fólk sund- og baðstaða að nemendur fari ekki að laug á undan þeim. Sund­kennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu aldrei víkja frá laug fyrr en allir nem­endur/­iðkendur yngri en 15 ára eru farnir inn í búnings- eða baðklefa. Þau varúðar­atriði sem hvíla á laugarverði hvíla einnig á kennara, þjálfara og leiðbeinanda varðandi nemendur og iðkendur.

Laugar í einkaeigu með takmarkaðan aðgang eru undanþegnar ákvæði um stöðuga laugar­gæslu sbr. 1. mgr. 11. gr. Eiganda eða eftir atvikum rekstraraðila slíkra lauga ber að setja skýrar reglur um notkun laugar þegar laugargæsla er ekki til staðar. Ekki skulu færri en tveir syndir einstaklingar fara saman í laugina. Ekki má veita börnum og ósyndum einstaklingum aðgang að laug án fylgdar ábyrgðarmanns. Við þessar aðstæður skal vera til staðar búnaður til skyndihjálpar, sími eða neyðarrofi tengdur Neyðarlínu.

Einstaklingum undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna er ekki heimill aðgangur að sund- og baðstöðum.

Gestir sund- og baðstaða skulu í hvívetna hlýða fyrirmælum starfsmanna sundstaða varðandi öryggi og hollustuhætti. Laugarverði er heimilt að vísa gesti úr laug eða meina honum aðgang að laug telji laugarvörður það nauðsynlegt til að tryggja öryggi eða þegar gestur fer ekki að lögum og reglum.

Þá lítur 15. gr. svona út:

Eiganda sund- og baðstaðar er skylt að sjá til þess að starfsfólk fái reglulega starfs­þjálfun eigi sjaldnar en árlega, þar með talin þjálfun í sérhæfðri skyndihjálp sem sérstak­lega er ætluð sund- og baðstöðum og fræðslu um hreinlæti og hollustuhætti. Þeir starfs­menn sem vinna við meðferð tækja, þar með talin mælitæki, búnaðar og efna vegna hreinsunar vatnsins skulu árlega fá viðeigandi þjálfun í meðferð þeirra.

Starfsmenn sem sinna laugargæslu, sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu hafa náð 18 ára aldri. Starfsmenn sem sinna laugargæslu skulu árlega standast hæfnis­próf samkvæmt III. viðauka. Sundkennarar, sundþjálfarar og leiðbeinendur skulu stand­ast hæfnispróf samkvæmt III. viðauka á tveggja ára fresti.

Leiðbeinendur með gild réttindi til að leiðbeina í skyndihjálp og björgun skulu annast hæfnis­próf skv. III. viðauka. Slík réttindi öðlast þeir sem hafa lokið leiðbeinenda­námskeiði í skyndihjálp og tveggja daga leiðbeinendanámskeiði í björgun. Til að við­halda réttindum sínum skal leiðbeinandi sækja endurmenntun fyrir leiðbeinendur í skyndi­hjálp og björgun á þriggja ára fresti. Heimilt er að leiðbeinendur leiti til íþrótta­kennara til að framkvæma prófatriði 1-3 í hæfnisprófi skv. III. viðauka.

Að loknu námskeiði í sérhæfðri skyndihjálp fyrir sund- og baðstaði og hæfnisprófum skv. III. viðauka, skulu leiðbeinendur senda lista yfir þátttakendur sem hafa lokið sérhæfðu skyndihjálparnámskeiði fyrir sund- og baðstaði og þá er hafa staðist hæfnispróf sam­kvæmt III. viðauka, til viðkomandi heilbrigðiseftirlitssvæðis og til viðkomandi rekstrar­aðila sundstaðar þar sem starfsmaðurinn starfar.

Listi frá leiðbeinendum um þá sem staðist hafa hæfnispróf skv. III. viðauka og starfa á sund- og baðstað, skulu vera starfsmönnum heilbrigðiseftirlits aðgengileg við eftirlit.

Við 3. mgr., sem verður 7. mgr., bætist við nýr málsliður sem orðast svo:

Rekstraraðila ber að tilkynna heilbrigðiseftirliti um öll alvarleg slys.

Haldin skal skrá yfir slys sem verða í eða við laugar og skal hún vera heilbrigðiseftirliti aðgengileg.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica