17. janúar 2012

Ráðstefna um meðferð kynferðisbrota

Innanríkisráðuneyti, Lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni efna í samvinnu við Evrópuráðið til ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þann 20. janúar. Málstofan fer fram í Skriðu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík og stendur frá klukkan 10 til 18.

Innanríkisráðuneyti, Lagadeild Háskóla Íslands og Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni efna í samvinnu við Evrópuráðið til ráðstefnu um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu þann 20. janúar. Málstofan fer fram í Skriðu, Menntavísindasviði Háskóla Íslands við Stakkahlíð í Reykjavík og stendur frá klukkan 10 til 18.

Á ráðstefnunni verða bæði erlendir og innlendir fyrirlesarar og leitast verður við að leiða saman sjónarmið fræðasamfélagsins, réttarvörslukerfisins og frjálsra félagasamtaka sem fjalla um málaflokkinn.

Ráðstefnan verður í þremur hlutum.

  • Í fyrsta hluta verður fjallað um kynferðisbrot gegn börnum í tengslum við sáttmála Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun. Íslensk stjórnvöld undirrituðu sáttmálann 4. febrúar 2008 og fullgilding stendur nú fyrir dyrum. Í þessu samhengi verður sérstaklega fjallað um reglur Evrópuráðsins um barnvænt réttarumhverfi en þær voru útbúnar í tengslum við sáttmálann.
  • Í öðrum hluta verður fjallað um meðferð nauðgunarmála í réttarkerfinu út frá þverfaglegu sjónarhorni. Er þessi hluti sjálfstætt framhald af viðamiklu samráði sem innanríkisráðuneytið hefur staðið fyrir um meðferð nauðgunarmála.
  • Í þriðja hluta ráðstefnunnar verður boðið upp á þrjár málstofur með aðkomu fræðimanna, lögreglu, saksóknara, dómara, lögmanna og frjálsra félagasamtaka. Í þeirri fyrstu verður fjallað um samspil barnaverndarkerfisins og refsivörslukerfisins; í annarri verður rætt um rannsóknir og ákærur í nauðgunarmálum og í þeirri þriðju verður fjallað um trúverðugleika og sönnunarmat.

Ráðstefnan er öllum opin en þátttakendur eru beðnir um að skrá sig til þátttöku og tilgreina áhuga á málstofu með því að senda póst á netfangið sigurros.eliasdottir@irr.is.

Dagskrá og nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna í frétt dags. 11. janúar 2012 á vef innanríkisráðuneytisins


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica