Píp-test í grunnskólum
Umboðsmanni barna hafa borist fjölmargar ábendingar frá nemendum í grunnskólum og foreldrum grunnskólabarna sem varða þol- og hlaupapróf í íþróttakennslu eða svokölluð píp-test. Embættið kom þeim ábendingum á framfæri í bréfi til mennta- og barnamálaráðherra.
Framkvæmd prófanna, sem þó tíðkast ekki í öllum skólum, er með þeim hætti að nemendur hlaupa fram og til baka í íþróttasal skólans, þar sem tíminn milli lota er stöðugt styttur, en þeir sem ekki ná að hlaupa salinn á enda á tilskyldum tíma, verða að setjast niður og fylgjast með þar til aðeins einn stendur eftir.
Samkvæmt þeim ábendingum sem umboðsmanni hafa borist eru dæmi um að börn hafi ofreynt sig í ákafa sínum um að reyna að standa sig vel í prófinu. Þá upplifa mörg börn vanlíðan og kvíða fyrir prófinu og á meðan á framkvæmd þeirra stendur. Einnig upplifa mörg börn útsláttinn sem í prófinu felst, og sem á sér stað í viðurvist skólafélaga, sem niðurlægingu.
Umboðsmaður barna sendi bréf til mennta- og barnamálaráðuneytisins og óskaði eftir upplýsingum hvort að ráðuneytið hyggist taka umrætt fyrirkomulag til skoðunar og bregðast við framkomnum athugasemdum og sjónarmiðum barna, sem komið var á framfæri í bréfinu.