19. september 2014

Ofbeldi á ungbarnaleikskóla - Álit

Umboðsmaður barna hefur sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara álit sitt vegna meðferðar máls sem varðar ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskóla. Umboðsmaður er ósammála túlkun ákæruvaldsins á núgildandi lögum og telur hana brjóta gegn réttindum barna.  Auk þess hefur hann áhyggjur af því að vinnubrögð lögreglunnar í málinu hafi ekki verið nægilega vönduð, enda virðist hún byggja niðurstöðu sína á orðalagi lagaákvæðis sem ekki er lengur í gildi. Umboðsmaður hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir og telur óásættanlegt að börnum sé ekki veitt ríkari vernd gegn ofbeldi hér á landi. 

 

 

Álit umboðsmanns barna vegna niðurstöðu ákæruvaldsins um að fella niður mál sem varðar ofbeldi gegn barni

 

Rassskellingar á ungbarnaleikskóla
Í lok síðasta árs komst Barnavernd Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu að starfsmenn ungbarnaleikskóla hefðu beitt ómálga börn harðræði. Ýmis gögn lágu fyrir í málinu, meðal annars myndskeið þar sem starfsmaður slær barn á rassinn. Þrjú vitni staðfesta að umræddur starfsmaður hafi oft rassskellt börn á leikskólanum. Foreldrar barnsins í umræddu myndbandi kærðu málið til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en málið var fellt niður með vísan til þess að það teldist ekki líklegt til sakfellis. Ákvörðun lögreglunnar um að fella málið niður var í framhaldinu kærð til ríkissaksóknara, sem staðfesti ákvörðunina. Umboðsmaður barna lítur mál sem varða ofbeldi gegn börnum alvarlegum augum og ákvað því að skoða málið nánar. Hann óskaði því eftir öllum gögnum málsins frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu. Gögnin bárust í lok maí sl.

Umboðsmaður barna gagnrýnir niðurstöðu ákæruvaldsins
Umboðsmaður barna harmar þá ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að fella niður mál sem varðar ofbeldi gegn barni á ungbarnaleikskóla. Ennfremur lýsir hann yfir vonbrigðum sínum yfir því að ríkissaksóknari hafi staðfest umrædda ákvörðun. Umboðsmaður gagnrýnir harðlega þá niðurstöðu að sú háttsemi að slá barn á rass teljist ekki refsiverð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í núgildandi ákvæði 99. gr. barnaverndarlaga kemur skýrt fram að hver sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Jafnframt kemur fram í 2. mgr. 1. gr. barnaverndarlaga að allir sem hafi uppeldi og umönnun barna með höndum skuli sýna þeim virðingu og umhyggju og að óheimilt sé með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Er því skýrt að hvers kyns ofbeldi eða vanvirðandi háttsemi gegn barni, svo sem að slá það á rassinn, er refsiverð.

Lögreglustjórinn virðist byggja ákvörðun sína á gömlum lögum
Í rökstuðningi lögreglustjórans er meðal annars vísað til þess að ekki hafi verið „um að ræða háttsemi sem hafi verið til þess fallin að skaða barnið andlega né líkamlega“. Í 99. gr. barnaverndarlaga er hins vegar ekki gerð nein krafa um að sýnt sé fram á slíkan skaða, enda er gengið út frá því að ofbeldi hafi ávallt slæm áhrif á líðan barna. Hér virðist lögreglustjórinn því vera vísa til orðalags eldra ákvæðis barnaverndarlaga. Má í því sambandi benda á að meðal þeirra gagna sem umboðsmaður fékk um málið var útprentun af 98. og 99. gr. barnaverndarlaga eins og þær hljóðuðu áður en lögunum var breytt með lögum nr. 52/2009.  Áður en 99. gr. barnaverndarlaga var breytt kom fram í ákvæðinu að það væri refsivert að beita barn refsingum, hótunum eða ógnunum ef ætla mætti að slíkt hefði skaðað það andlega eða líkamlega. Í umdeildum dómi Hæstaréttar frá 22. janúar 2009, í máli nr. 506/2008 var meðal annars vísað til þess að þágildandi ákvæði legði ekki fortakslaust bann við því að foreldri, eða annar maður með samþykki þess, beiti barn líkamlegum refsingum til að bregðast við óþægð, heldur væri refsinæmi slíkrar háttsemi háð því að slíkt væri til þess fallið að skaða barnið andlega og líkamlega. Umboðsmaður barna og fleiri aðilar gagnrýndu þennan dóm harðlega og var barnaverndarlögunum í kjölfarið breytt, sbr. lög nr. 52/2009. Í athugasemdum með breytingarlögunum er sérstaklega vísað til þess að niðurstaða fyrrnefnds dóms hafi verið „verulega óeðlileg, sérstaklega í ljósi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennrar afstöðu íslensku þjóðarinnar til líkamlegra refsinga gegn börnum“. Þá er sérstaklega tekið fram að „frumvarpinu sé ætlað að taka af allan vafa um að líkamlegar eða andlegar refsingar gegn börnum séu undir engum kringumstæðum heimilar“.

Ríkissaksóknari telur það ekki „líkamlega refsingu“ að slá barn á afturendann
Rökstuðningur ríkissaksóknara fyrir því að það teljist ekki brot á 99. gr. barnaverndarlaga að slá barn á rassinn er nokkuð frábrugðinn rökstuðningi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Virðist ríkissaksóknari líta svo á að umrædd háttsemi falli ekki undir hugtakið „líkamleg refsing“ í skilningi 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga.

Umboðsmaður barna er ósammála þessari túlkun, enda hefur almennt verið litið svo á að hvers kyns líkamleg aflbeiting gegn barni til að bregðast við óþægð teljist líkamleg refsing. Þar að auki er rétt að benda á að önnur vanvirðandi háttsemi gagnvart barni telst einnig refsiverð samkvæmt 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Í því sambandi verður að líta til þess aðstöðu- og aflsmunar sem er á ungu barni og fullorðnum einstaklingi, sem á að sýna barninu virðingu og umhyggju. Í umræddu máli er til staðar myndskeið þar sem starfsmaður leikskólans sést slá rass barns og sýna því harkalega og vanvirðandi framkomu. Starfsmaðurinn viðurkennir einnig að hafa „danglað“ í barnið vegna þess að það var óþekkt og neitaði að hætta. Þá hafa þrjú vitni sagt að þau hafi oft séð umræddan starfsmann rassskella börn. Virðist það því hafið yfir skynsamlegan vafa að umræddur starfsmaður notaði ítrekað þá aðferð að slá á rass barna í þeim tilgangi að halda uppi aga – sem telst að mati umboðsmanns barna ótvírætt líkamleg refsing í skilningi barnaverndarlaga.


Rassskellingar og 217. gr. almennra hegningarlaga

Ríkissaksóknari bendir einnig á það máli sínu til stuðnings að túlka beri 99. gr. barnaverndarlaga í samræmi við 217. gr. almennra hegningarlaga. Þó að vísað sé til 217. gr. í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 52/2009 er ljóst að 99. gr. er mun víðtækara ákvæði, enda nær það jafnt til líkamlegra refsinga og andlegra, sem og annars konar vanvirðandi háttsemi. Umboðsmaður barna telur auk þess þá háttsemi að slá barn á rass falla undir 217. gr. almennra hegningarlaga, enda hefur almennt verið litið svo á að ákvæðið geti átt við þó ekki sé sýnt fram á teljandi tjón. Má einnig benda á að umboðsmaður barna gagnrýndi harkalega fyrrnefndan dóm Hæstaréttar, þar sem gengið var út frá því að foreldri, eða annar maður með samþykki foreldris, gæti beitt barn líkamlegum refsingum til að bregðast við óþægð. Þó að samþykki þolanda geti almennt leyst menn undan refsiábyrgð samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga verður ekki fallist á að foreldrar geti veitt slíkt samþykki fyrir hönd barna sinna, enda eru börn fullgildir einstaklingar með sjálfstæð réttindi. Jafnframt fær það ekki staðist að foreldrar geti samþykkt að börn þeirra verði beitt ofbeldi, enda ber þeim skylda til þess að vernda þau gegn slíku, sbr. m.a. 3. mgr. 28. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sem fyrr segir var 99. gr. barnaverndarlaga breytt til þess að bregðast við umræddum dómi og má því ætla að niðurstaðan yrði önnur ef sambærilegt mál kæmi til kasta dómstóla í dag. Vernd barna gegn ofbeldi hefur auk þess verið áréttuð sérstaklega með breytingu á barnalögum, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 61/2012 og lögfestingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. 19. gr. laga nr. 19/2013.

Hættuleg skilaboð
Í ljósi þess sem að framan greinir telur umboðsmaður barna að sú niðurstaða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara um að fella umrætt mál niður hafi verið röng. Umboðsmaður barna telur það skýrt brot á 99. gr. barnaverndarlaga að slá barn á rassinn, óháð því hvort það hafi verið gert í uppeldislegum tilgangi eða ekki.

Umboðsmaður barna hefur verulegar áhyggjur af þeim skilaboðum sem þessi niðurstaða sendir. Ef refsiákvæði 99. gr. barnaverndarlaga og 217. gr. almennra hegningarlaga eru túlkuð með þessum hætti má ætla að það teljist ekki refsivert að beita barn ofbeldi, svo lengi sem það hefur ekki sýnilegar afleiðingar. Börn á leikskólum eru háð umönnun og vernd starfsfólks og sett undir yfirburðarstöðu þess. Ung börn hafa ekki getu til þess að segja frá ofbeldi eða tjá sig um þau áhrif sem það hefur á líðan þeirra. Hins vegar hefur verið sýnt fram á að hvers kyns ofbeldi gegn börnum hefur slæm áhrif á velferð þeirra, auk þess sem slíkt kennir börnum að eðlilegt sé að grípa til ofbeldis til að bregðast við mótlæti eða ná fram fram vilja sínum.  

Brot á mannréttindum barna
Þessi niðurstaða er óásættanleg að mati umboðsmanns barna og felur í sér brot á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt 19. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Má í því sambandi vekja athygli á að Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna hefur bent á að í 19. gr. felist að aldrei sé heimilt að beita líkamlegu afli til þess að aga börn, óháð því hvort slíkt hafi sýnilegar afleiðingar eða ekki. Það að slá á rass barns er líkamleg valdbeiting, auk þess sem slík háttsemi getur talist vanvirðandi og niðurlægjandi fyrir barnið.

Að lokum má velta fyrir sér hvort það að börnum sé ekki veitt refsivernd gegn líkamlegri valdbeitingu starfsfólks leikskóla sé brot á mannréttindaákvæðum stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944. Í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar kemur fram að börnum skuli tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Reglan felur í sér að skylt er að tryggja börnum sérstaka vernd, auk þess sem skylt er að sjá til þess að velferð þeirra sé tryggð með öllum tiltækum ráðum. Ofbeldi stofnar velferð barna ótvírætt í hættu og getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Má því leiða af ákvæðinu þá grundvallarskyldu ríkisins að tryggja öllum börnum vernd gegn ofbeldi og annars konar illri meðferð.

Í 68. gr. stjórnarskrárinnar er öllum tryggð vernd gegn ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð. Börnum er auk þess tryggð sérstök vernd gegn slíkri meðferð í a-lið 37. gr. Barnasáttmálans. Þegar metið er hvort um sé að ræða ómannúðlega eða vanvirðandi meðferð þarf að meta aðstæður heildstætt, meðal annars með hliðsjón af aldri þolanda. Almennt er talin meiri hætta á því að slík meðferð eigi sér stað í þeim tilvikum sem einstaklingur er háður annarri manneskju eða settur undir yfirburðarstöðu annars einstaklings. Má í því sambandi benda á að í athugasemdum með þessu ákvæði stjórnarskrárinnar er tekið fram að ómannúðleg og vanvirðandi meðferð geti til dæmis skírskotað til meðferðar foreldra á börnum sínum. Má ætla að sömu sjónarmið eigi við um ofbeldi gegn börnum á leikskólum, enda eru börn við slíkar aðstæður algjörlega háð umönnun starfsfólks.

Brýnt að auka vernd barna gegn ofbeldi
Umboðsmaður barna lítur málið alvarlegum augum. Hann skorar á lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara til að endurskoða túlkun sína á ofangreindum refsiákvæðum. Ef ákvæðin verða hins vegar áfram túlkuð með þessum hætti er brýnt að breyta barnaverndarlögum og árétta enn frekar að hvers kyns líkamleg valdbeiting gegn börnum sé refsiverð.

 

 

 

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica