28. nóvember 2019

Nýtt merki umboðsmanns barna

Umboðsmaður barna hefur fengið nýtt merki. Það er eftir sama höfund og fyrra merkið, Þorvald Ó. Guðlaugsson, og sýnir eins og áður kríur á flugi. 

 Eðlisþættir kríunnar hafa ákveðna skírskotun í hlutverk embættis umboðsmanns barna, sem stendur vörð um hagsmuni og réttindi barna í íslensku samfélagi. Kríur eru langt að komnar - boðberar vonar um betri tíð. Þrátt fyrir smæð sína búa þær yfir aðdáunarverðum krafti og verjast hvers konar yfirgangi með öllum tiltækum ráðum. Aðrir fuglar keppast um að verpa í nágrenni við kríur enda verja þær varpsvæði sín og unga af mikilli harðfylgni. Kríurnar í nýja merkinu eru þrjár. Sú stærsta býr sig til að stinga sér niður og vernda unga sína á meðan minni kríurnar fljúga frjálsar í ólíkar áttir. Nýja merkið er í svörtum, hvítum og gráum tón utan þess að goggurinn er appelsínugulur. Á eldra merkinu voru tveir litir ráðandi, bleikt og blátt og áttu að tákna bæði kyn. Með breyttum tíðaranda var hins vegar þörf á endurnýjun og vísa litirnir því ekki til hefðbundinna kynja eins og áður.

 

Merki umboðsmanns barna lárétt

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica