6. desember 2021

Hækkun á árskortum ungmenna

Umboðsmaður barna hefur sent bréf til Strætó BS. vegna umtalsverðar hækkunar á árskortum til ungmenna. Sú hækkun er ekki talin samræmast bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu.  

Fyrr á árinu tilkynnti Strætó bs., að strætóferðir yrðu framvegis gjaldfrjálsar fyrir börn 11 ára og yngri og fagnaði umboðsmaður þeirri breytingu mjög. Var talið að um fyrsta skref væri að ræða til að tryggja öllum börnum aðgang að gjaldfrjálsum almenningssamgöngum. Með þessari hækkun, sem er veruleg, er ljóst að svo er ekki. 

Í bréfi umboðsmanns barna kemur meðal annars fram: 

Börn hafa lengi kallað eftir því að almenningssamgöngur verði gjaldfrjálsar og telja það vera mikilvægt jöfnunartæki sem stuðli að auknum tækifærum fyrir öll börn, auk þess að minnka loftmengum og bílaumferð. Þá ber þess sérstaklega að geta að gjaldfrjálsar almenningssamgöngur voru meðal þeirra atriða sem þingfulltrúar á fyrsta barnaþingi umboðsmanns barna lögðu sérstaka áherslu á árið 2019.

Erindinu er meðal annars beint að eigendum Strætó sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en sem opinberir aðilar ber þeim að virða og innleiða ákvæði Barnasáttmálans. Meðal þess sem sáttmálinn gerir kröfu um er að tryggja það að allar ákvarðanir sem varða börn byggi á því sem þeim er fyrir bestu. Með hliðsjón af því óskar umboðsmaður barna eftir "upplýsingum um það, hvernig stjórn og framkvæmdarstjóri telja umrædda hækkun samræmast bestu hagsmunum barna á höfuðborgarsvæðinu og einnig óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum um það hvort og þá hvernig mat hefur verið lagt á áhrif þessarar ákvörðunar á þau börn sem ljóst er að hækkunin snertir hvað mest, þ.e. börn sem búa við fátækt og erfiðar félagslegar aðstæður."

Óskað er eftir að upplýsingar og skýringar berist umboðsmanni eins fljótt og auðið er. Samkvæmt 5. gr. laga nr. 83/1994, um umboðsmann barna, er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni barna allar þær upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. 


Uppfært 13.01.2022

Svar barst frá Strætó BS. með tölvupósti þann 13. janúar 2022. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica