Að ræða við börn um kórónuveiruna
Það mikilvægasta sem þú getur gert sem fullorðinn er að fullvissa og róa barnið og koma í veg fyrir að það upplifi valdaleysi. Til þess að svo megi verða þarft þú að komast að því hvað barnið þitt veit og hverjar þarfir þess eru.
Vertu vakandi og með opinn huga!
Þú getur gengið út frá því að flest börn vita af tilvist Kóróna-veirunnar, enda fá börn fréttir á ýmsa vegu, þau ræða líka við önnur börn og hlusta á fullorðna tala.
Þú skalt ekki gefa þér að barnið sé endilega með áhyggjur af eigin heilsu og velferð.
Taktu tillit til þess að börn eiga erfiðara en fullorðnir með að leggja mat á það sem fram kemur í fréttum. Er veiran raunverulega hættuleg eða finnst okkur það bara? Hér þurfa fullorðnir að axla sína ábyrgð með því að skilja börnin ekki ein eftir með hugsanir sínar og spurningar og það að reyna að skilja og leggja mat á þær upplýsingar sem þau búa yfir.
Öll börn eru einstök og ýmsir þættir hafa áhrif á viðbrögð þeirra við atvikum eins og þessum eins og t.d. aldur þeirra, þroski og núverandi aðstæður þeirra. Fyrri reynsla þeirra skiptir líka máli hér, eins og til dæmis hvort börn hafi upplifað eigin veikindi eða veikindi annarra.
Fyrir börn sem eru kvíðin geta áhyggjur af veirunni valdið auknum kvíða, á meðan önnur börn hafa engar áhyggjur.
Spurðu beinna spurninga!
Þú þarft að komast að því hversu mikið barnið veit, í hversu miklu mæli barnið er að hugsa um veiruna, og hvaða spurningar það er með varðandi veiruna. Spurðu: Hvað hefur þú heyrt? Hvað veist þú? Ertu með einhverjar spurningar um þetta?
Sýndu barninu að þú sért reiðubúin/n að ræða við það, líka um það sem er erfitt og flókið, jafnvel þó svo að þú sért ekki með svör við öllum spurningum eða vangaveltum.
Upplýstu!
Barnið þarf að fá svör við spurningum sínum, finna fyrir yfirvegun og stjórn á aðstæðum.
Einbeittu þér að því veita upplýsingar sem eru gagnlegar. Svaraðu spurningum af heiðarleika en ekki veita of mikið af upplýsingum sem ekki eru gagnlegar, slepptu því að ræða smáatriði sem ekki skipta öllu máli.
Börn hafa fyrst og fremst áhyggjur af því sem getur haft neikvæð eða skaðleg áhrif á þau sjálf, fjölskylduna eða aðra sem standa þeim nærri. Segðu barninu að veiran sé smitandi en upplýstu það jafnframt um þá staðreynd að veiran virðist ekki hafa jafn mikil áhrif á börn og fullorðna. Útskýrðu jafnframt fyrir barninu að sá sem er lasinn eigi þess vegna að forðast það að hitta ömmu og afa.
Gefðu barninu réttar upplýsingar og ef þú býrð ekki yfir þeim er hægt að horfa t.d á Krakkafréttir RÚV með barninu þar sem fjallað er um veiruna, og ræða síðan það sem þar kemur fram.
Ekki yfirfæra eigin tilfinningar!
Það er mikilvægt að þú yfirfærir ekki eigin tilfinningar á barnið eða gangir út frá því að barnið upplifi aðstæðurnar á sama hátt og þú. Það sem veldur fulllorðnum áhyggjum þarf ekki að snerta börn á sama hátt.
Ef þú finnur fyrir kvíða eða hefur áhyggjur skalt þú ræða það við aðra fullorðna þegar barnið er ekki nærverandi.
Róaðu og gefðu von!
Segðu barninu að það að eitthvað sé í fréttum sé ekki endilega til marks um hversu mikil áhætta fylgir því. Segðu barninu að um veiruna sé fjallað í fréttum fyrst og fremst vegna áhrifa hennar á samfélagið eins og fjárhagsleg áhrif og þá staðreynd að aflýsa hefur þurft ferðum og viðburðum, loka skólum o.s.frv.
Segðu barninu að margir vinni að því að koma í veg fyrir frekari smit, unnið sé að því að fá fram bóluefni, og verið sé að hlúa að þeim sem þegar hafi veikst. Þú getur líka sagt barninu að flestir sem veikjast ná sér að fullu.
Það er mikilvægt að börn fái að heyra að fullorðnir eru að axla ábyrgð sína. Léttu á barninu með því að segja því að þú munir sjá um að halda því upplýstu, þannig að barnið finni að það sé ekki á ábyrgð þess að fylgjast með fréttum og umræðum.
Gangi ykkur vel!