Þátttaka á ENYA - um réttindi barna í stafrænu umhverfi
Umboðsmaður barna tekur á þessu ári í fyrsta sinn í þátt í ENYA (European Network of Young Advisors) sem vinnur með evrópskum samtökum umboðsmönnum barna þar sem fjallað var um réttindi barna í stafrænu umhverfi og ber yfirskriftina Let‘s talk young, let‘s talk about children‘s rights in the digital environment.
Markmið verkefnisins er að gefa ungmennum tækifæri til að láta í sér heyra varðandi eigin réttindi í tengslum stafræna tækni og umhverfi. Á þessu ári tóku 18 umboðsmenn barna í Evrópu þátt í verkefninu sem fólst í því að í hverju landi eru settir á fót hópar barna til að ræða málefnið á eigin forsendum. Hér á landi tóku þátt í verkefninu alls 18 börn á aldrinum 11-17 ára annar í Reykjavík og hinn á Akureyri. Hvor hópur um sig hittist nokkrum sinnum og ræddu hvaða málefni þeim fyndist brýnast varðandi starfrænt umhverfi og samfélagsmiðla. Hópurinn á Akureyri lagði áherslu á upplýsingar, tjáningarfrelsi, öryggi og einkalíf, en hópurinn í Reykjavík lagði áherslu á réttindi, öryggi og fræðslu. Í lokin útbjó hvor hópur um sig myndband þar sem helstu áherslur voru kynntar.
Dagana 25. – 26. júní var haldinn fundur í Brussel þar sem tveir fulltrúar hvers lands, eða hátt í fjörtíu börn, komu saman og útbjuggu endanlegar tillögur sem kynntar verða á árlegum fundi umboðsmanna barna í Evrópu sem verður haldinn í Belfast í haust. Ísak Hugi var fulltrúi Reykjavíkurhópsins og Illugi Dagur fulltrúi Akureyrarhópsins á fundinum í Brussel en með í för var umboðsmaður barna Salvör Nordal og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir sem hefur unnið með ráðgjafarhópi embættisins á síðustu mánuðum. Ísak Hugi og Illugi Dagur kynntu vinnu hópanna og myndböndin og fengu frábær viðbrögð. Niðurstöður barnanna á fundinum í Brussel voru fjölbreyttar en hafa þó ýmsa sameiginlega snertifleti. Mikið hefur verið rætt um notkun samfélagsmiðla, netöryggi, staðalmyndir og fræðslu. Eftir kynningar frá Evrópulöndunum var kosið á mili þeirra málefna sem börnin höfðu lagt til. Valin voru þemun fræðsla, neteinelti og sexting, þegar skipst er á kynferðislegum smáskilaboðum og myndrænu efni í gegnum netið. Eftir hópefli og hópavinnu var unnið að myndrænni lokaafurð sem sýnd verður á fundinum í Brussel.
Verkefnið hefur verið afar lærdómsríkt fyrir alla þátttakendur og starfsfólk umboðsmanns barna. Það er mikilvægt fyrir ungmenni að kynnast umræðu og afstöðu félaga sinna í öðrum löndum. Stefnt er að því að vinna enn frekar með verkefnið í haust.