Reglur um snjallsíma í skólum
Á vefnum www.snjallskoli.is hefur verið birt grein eftir umboðsmann barna. Í greininni er skýrt hvers vegna umboðsmaður barna heldur því fram að það sé ekki í samræmi við réttindi nemenda að starfsfólk skóla megi samkvæmt skólareglum taka síma og og önnur snjalltæki af nemendum gegn vilja þeirra.
Tilgangurinn Snjallskólans er að safna og miðla upplýsingum til kennara og nemenda og annarra sem láta sig menntun varða og leggja eitthvað af mörkum í umræðunni um skólastarf á Íslandi í von um betri menntun og betri skóla. Eitt af markmiðunum með Snjallskólanum er að stuðla að því að nám í skólum á Íslandi búi nemendur betur undir framtíðina.
Grein umboðsmanns barna er birt hér í heild sinni.
Snjallar reglur - má taka síma eða önnur snjalltæki af nemendum?
Snjalltæki bjóða upp á margar nýjungar í skólastarfi og geta verið gagnleg verkfæri fyrir bæði nemendur og kennara. Á sama tíma geta þessi tæki stundum haft truflandi áhrif í skólum, til dæmis þegar nemendur nota þau í leyfisleysi í kennslustund. Sumir skólar bregðast við slíkri hegðun með því að taka tækin af nemendum. Aðrir skólar hafa viljað safna saman öllum símum í upphafi kennslustundar, til að fyrirbyggja truflun. Mörg börn hafa leitað til umboðsmanns barna og spurt hvort skólar megi bregðast við með þessum hætti. Hér verður farið yfir helstu atriðin sem þarf að hafa í huga þegar metið er hvað má og hvað má ekki til þess að takmarka truflandi áhrif snjalltækja í skólum.
Réttindi barna
Lengi vel var ekki litið á börn sem sjálfstæða einstaklinga heldur fremur nokkurs konar „eign“ foreldra sinna. Þá var ýmis vanvirðandi háttsemi gegn börnum réttlætt með því að hún væri „þeim sjálfum fyrir bestu.“ Sem dæmi má nefna að hýðingar og annars konar ofbeldi gegn börnum var víða notað í uppeldislegum tilgangi, til dæmis í skólum. Á undanförnum áratugum hefur viðhorfið til barna breyst mikið og er nú viðurkennt að börn séu fullgildir einstaklingar, með sjálfstæð mannréttindi. Almenn mannréttindaákvæði, svo sem mannréttindaákvæði stjórnarskrár Íslands, eiga því við um börn jafnt sem fullorðna. Þar sem börn eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu í samfélaginu er þeim auk þess tryggð sérstök mannréttindi, til dæmis í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna . Aukin meðvitund um réttindi barna hefur leitt til þess að nú er gerð krafa um að uppeldisaðferðir og agaúrræði, hvort sem það er heima fyrir eða í skólum, verða að vera í samræmi við réttindi barna og mannlega reisn þeirra. Ber því að sýna börnum að minnsta kosti sömu virðingu og fullorðnum, auk þess sem koma skal fram við þau af sérstakri nærgætni.
Eignaréttur og friðhelgi einkalífs
Þegar metið er hvernig skólar geta brugðist við truflandi áhrifum snjalltækja er mikilvægt að hafa í huga að börn njóta eignaréttar eins og aðrir, en samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar er eignarétturinn friðhelgur. Einnig þarf að huga að því að allir eiga rétt á friðhelgi einkalífs samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Skólum eða öðrum opinberum aðilum er ekki heimilt að skerða þessi réttindi nema það sé talið nauðsynlegt til að vernda einstaklings- eða almannahagsmuni og þá einungis á grundvelli lagaheimildar. Einnig er rétt að benda á að í íslenskum rétti gildir svokölluð lögmætisregla, en hún felur í sér að ákvarðanir stjórnvalda, þar á meðal skóla, þurfa annars vegar að eiga sér stoð í lögum og hins vegar að vera í samræmi við lög.
Skólalöggjöf
Öll börn eiga rétt á menntun við hæfi. Er því mikilvægt að kennarar geti haldið uppi aga í kennslustundum og tryggt nemendum þann vinnufrið sem þeir þurfa. Í samræmi við það er tekið fram í lögum að nemendur eigi að fara eftir fyrirmælum kennara og starfsfólks. Þá eiga allir skólar að setja sér skólareglur og hafa þeir nokkuð svigrúm um inntak slíkra reglna. Þó er ljóst að reglurnar þurfa að vera skýrar og afdráttarlausar og í samræmi við lög og réttindi barna. Í reglunum á einnig að koma skýrt fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim. Viðbrögðin verða að eiga sér stoð í lögum, vera markviss og til þess fallin að hafa jákvæð áhrif. Þá er skylt að velja alltaf vægasta úrræðið sem er til þess fallið að ná settu markmiði.
Má taka snjalltæki af nemendum?
Æskilegt er að skólar taki afstöðu til þess í skólareglum hvernig nemendur eigi að umgangast snjalltæki á skólatíma. Í raun geta skólar ákveðið að banna alfarið slík tæki á skólatíma, ef þeir telja það nemendum fyrir bestu. Hins vegar eru takmörk fyrir því hvernig hægt er að bregðast við ef nemendur virða ekki þær reglur sem settar hafa verið. Sú aðgerð að taka snjalltæki af nemendum með valdi skerðir óneitanlega eignarétt og ráðstöfunarrétt þeirra. Þá verður að hafa í huga að þessi tæki hafa oft að geyma persónuupplýsingar, sem geta verið mjög viðkvæmar. Hvorki í lögum né reglugerðum er að finna heimild fyrir skóla til þess bregðast við agabrotum með því að taka eignir af nemendum. Ef snjalltæki er í eigu skólans hefur skólinn meira svigrúm og getur í raun tekið snjalltæki af nemendum sem virða ekki settar reglur. Hins vegar telur umboðsmaður barna ekki í samræmi við lög og réttindi barna að taka af þeim tæki sem þau eiga sjálf. Í undantekningartilvikum gæti verið réttlætanlegt að taka tæki af nemanda á grundvelli neyðarréttar, til dæmis ef það er beinlínis notað til þess að skaða aðra. Þó er rétt að taka fram að neyðarréttur skapast almennt ekki við það eitt að sími valdi ónæði. Sem dæmi um tilvik þar sem um neyðarrétt gæti verið að ræða er þegar nemandi notar snjalltæki til þess að leggja annan nemanda í einelti, til dæmis með því að sýna myndir eða annað efni sem getur talist meiðandi.
Má safna símum saman í upphafi kennslustundar?
Sumir skólar hafa tekið til þess ráðs að safna saman snjallsímum í upphafi dags eða upphafi hverrar kennslustundar, til þess að fyrirbyggja truflandi áhrif. Það er í sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því að kennarar og annað starfsfólk geri samkomulag við nemendur um slíkt fyrirkomulag. Þessi regla er þó háð því að nemendur samþykki því að fylgja henni, þar sem kennarar hafa takmarkaða heimild til þess að framfylgja henni. Þar sem börn njóta friðhelgi einkalífs er til dæmis ekki heimilt að leita í vösum eða töskum nemenda til þess að kanna hvort þeir séu með síma á sér. Ef nemandi neitar að afhenda síma er ekki rétt að taka hann af honum með valdi.
Í þeim tilvikum sem skólar taka snjalltæki af nemendum eða safna þeim saman í upphafi dags er brýnt að huga að þeirri fjárhagslegu ábyrgð sem fylgir, en gera má ráð fyrir að skólar væru látnir bera ábyrgð á tækjum sem skemmast í þeirra vörslu.
Skiptir samþykki foreldra máli?
Margir virðast líta svo á að það dugi að fá samþykki foreldra til þess að það megi taka síma eða önnur snjalltæki af nemendum með valdi. Umboðsmaður barna telur samþykki foreldra hins vegar ekki skipta máli í þessu sambandi. Börn eiga sem fyrr segir fullgild og sjálfstæð mannréttindi. Þó að foreldrar fari með forsjá barna sinna geta þeir ekki heimilað skólum að brjóta gegn réttindum þeirra. Skiptir því í raun ekki máli hvort foreldrar hafi veitt skólum leyfi til þess að taka snjalltæki af nemendum eða ekki. Foreldrar hafa hins vegar í sumum tilvikum víðtækari heimildir heima fyrir en skólar. Ef nemandi brýtur ítrekað skólareglur og notar snjalltæki í kennslustund geta foreldrar til dæmis reynt að tryggja að nemandi fari ekki með tækið í skólann.
Hvernig er þá hægt að bregðast við?
Við eigum að sýna börnum virðingu og ekki bjóða þeim upp á viðurlög sem við myndum sjálf ekki sætta okkur við. Velta má fyrir sér hvort fullorðnir á vinnumarkaði myndu sætta sig við að sími væri tekinn af þeim, til dæmis ef símnotkun hefði truflandi áhrif á vinnustað. Líklegt er að yfirmaður yrði að bregðast við með öðrum hætti, til dæmis með því að veita starfsmanni tiltal eða víkja honum úr rými eða af fundi.
Umboðsmaður barna telur að sjálfsögðu mikilvægt að tryggja að öll börn fái notið þeirrar kennslu sem þau eiga rétt á. Umboðsmaður telur þó vel hægt að bregðast við truflandi áhrifum snjalltækja með öðrum hætti en að taka tækin af nemendum með valdi. Sem dæmi má nefna að í mörgum skólum er litið svo á að ekki sé heimilt að taka þessi tæki af nemendum og hefur engu að síður gengið vel að skapa vinnufrið. Í raun ætti að nota sömu úrræði til þess að bregðast við óheimilli notkun snjalltækja eins og annarri truflandi hegðun.
Hér eru dæmi um úrræði sem skólar geta gripið til:
- Fyrst er rétt að kennari biðji nemanda um að setja snjalltæki í tösku eða vasa.
- Þegar nemandi lætur ekki frá sér tæki þrátt fyrir áminningu kennara er hægt að gefa nemanda kost á að afhenda kennaranum tækið. Ef nemandi neitar því er ekki heimilt að taka það af honum með valdi, enda koma önnur og vægari úrræði til greina.
- Hægt er að vísa nemanda úr kennslustund eða senda hann til skólastjóra.
- Ef nemandi truflar ítrekað kennslustund er rétt að skólinn hafi samráð við foreldra um hvernig best er að bregðast við. Þar sem foreldrar fara með forsjá barna sinna geta þeir beitt sér fyrir því að barn, sem hefur ítrekað truflað kennslustund, fari ekki með snjalltæki í skólann.
Þau börn sem hafa leitað til umboðsmanns barna upplifa það sem verulega íþyngjandi og óréttlát viðurlög að símar eða önnur snjalltæki séu tekin af þeim og eru slíkar aðgerðir því ekki líklegar til þess að hafa jákvæð og uppbyggileg áhrif. Umboðsmaður mælir með því að skólar setji sér skýrar reglur um notkun snjalltækja, í samvinnu við nemendur. Nemendur eiga rétt á því að hafa áhrif á öll mál sem varða þá, auk þess sem þeir eru mun líklegri til þess að fylgja reglum sem þeir tóku þátt í að móta. Í reglunum þarf að það koma skýrt fram hvernig bregðast á við brotum á þeim, en viðbrögðin verða að sjálfsögðu að vera í samræmi við lög og réttindi nemenda.