17. janúar 2020

Norrænt barnaþing í Kaupmannahöfn

Norrænt barnaþing á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar var haldið í Kaupmannahöfn í gær.

Norrænt barnaþing á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar var haldið í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í gær. Á barnaþinginu tóku þátt börn frá Grænlandi, Álandseyjum, Færeyjum, Íslandi, Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi og ræddu um þau málefni sem á þeim brunnu ásamt því að vinna sameiginlega ályktun til ráðamanna. Sex reykvísk ungmenni á aldrinum 12 til 15 ára voru fulltrúar Íslands á þinginu. 

Í ályktuninni kom meðal annars fram að tryggt verði að börn og ungmenni komi að ákvörðunum sem snerta þau og að hlustað sé á skoðanir þeirra. Þá sé stefnt að því að gera Norðurlönd að þeim stað í heiminum þar sem best sé fyrir börn að búa og alast upp. 

Salvör Nordal, umboðsmaður barna tók þátt ásamt Ásmundi Einari Daðasyni félags- og barnamálaráðherra. Þau tóku meðal annars þátt í hópavinnu þar sem tillögur voru ræddar en íslenski hópurinn valdi að ræða um andlega heilsu og líðan barna. Sú vinna var mjög lærdómsrík og kom umboðsmaður barna heim með góðar hugmyndir og tillögur frá börnunum í farteskinu. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica