Niðurstöður Krakkakosninga
Niðurstöður Krakkakosninganna voru kynntar í kosningasjónvarpi RÚV þann 30. nóvember sl. Miðflokkurinn sigraði í þeim kosningum með nokkrum yfirburðum.
Alls tóku 76 grunnskólar þátt í liðnum Krakkakosningunum sem voru nú haldnar í sjöunda sinn. Um 6100 nemendur tóku þátt sem er mesta þátttaka frá upphafi Krakkakosninga, frá árinu 2016.
Niðurstöðurnar voru sem fyrr kynntar í kosningasjónvarpi RÚV.
Miðflokkurinn sigraði nokkuð örugglega með 25% atkvæða, næst komu Píratar með 13,5% atkvæða og svo Lýðræðisflokkurinn með 10,2% atkvæða. Auðir og ógildir seðlar voru 313.
Krakkakosningar eru samstarfsverkefni umboðsmanns barna og KrakkaRÚV og voru haldnar í sjöunda skipti og nú í tengslum við alþingiskosningar. Með Krakkakosningum er börnum gefið tækifæri á að láta í ljós skoðanir sínar á frambjóðendum og er það í samræmi við það sem m.a. kemur fram í Barnasáttmálanum, samningi Sameinuðu þjóðanna um rétttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013 þar sem segir að börn eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar og hafa áhrif á samfélagið.
Umboðsmaður barna þakkar öllum þeim sem tóku þátt í Krakkakosningum kærlega fyrir samstarfið. Ykkar þátttaka er dýrmæt!