29. ágúst 2016

Námsgögn á táknmáli - bréf

Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra og Menntamálastofnun bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um aðgang heyrnarlausra og heyrnarskertra barna að námsgögnum á táknmáli í grunnskólum hér á landi.

Umboðsmaður barna hefur sent mennta- og menningarmálaráðherra og Menntamálastofnun bréf þar sem óskað er eftir upplýsingum um aðgang heyrnarlausra og heyrnarskertra barna að námsgögnum á táknmáli í grunnskólum hér á landi.  Bréfið er svohljóðandi: 

Reykjavík, 12. ágúst 2016
UB:1608/6.2.4

Efni: Námsgögn á íslensku táknmáli

Íslenskt táknmál er fyrsta mál heyrnarlausra barna, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Er því mikilvægt að tryggja að umrædd börn hafi aðgang að námsgögnum á táknmáli og er það í raun forsenda þess að þau geti staðið jafnfætis öðrum börnum í námi. Má í því sambandi minna á að samkvæmt 17. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 eiga allir nemendur rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum grunnskóla án aðgreiningar. Þá er í 2. mgr. 24. gr. laganna sérstaklega áréttað að við gerð og val námsgagna skuli þess gætt að allir nemendur fái jöfn tækifæri til náms.

Umboðsmanni barna hafa borist ábendingar um að heyrnalaus og heyrnaskert börn í grunnskólum hér á landi hafi almennt ekki aðgang að námsgögnum á íslensku táknmáli. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu þessara mála og hvort fyrirhugað sé að útbúa námsgögn við hæfi fyrir þessi börn. 

Rétt er að taka fram að er að taka fram að umboðsmaður barna starfar eftir lögum nr. 83/1994, en samkvæmt 5. gr. þeirra laga er stjórnvöldum skylt að veita umboðsmanni allar upplýsingar sem að hans mati eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu. 

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að senda tölvupóst á netfangið ub@barn.is eða hringja í síma 552-8999.

 

Virðingarfyllst,

Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica