26. apríl 2013

Námsferð til Írlands og N-Írlands

Dagana 14. – 19. apríl fór starfsfólk umboðsmanns barna í námsferð til systurembætta sinna á Írlandi og Norður Írlandi til að kynna sér starf þeirra með þátttöku barna í samfélaginu.

Umboðsmaður barna byggir starf sitt að miklu leyti á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Í Barnasáttmálanum er í 12. grein fjallað um rétt barna til að tjá sig um eigin málefni og taka lýðræðislegan þátt í samfélaginu. Þar segir að börn eiga rétt á að láta í ljós skoðanir sínar í öllum málum er varða þau og að tekið sé réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.  Þetta er sú grein sem erfiðast hefur verið að framfylgja hér á landi þrátt fyrir að ýmislegt hafi þokast upp í þeim málum, sérstaklega á lagalega sviðinu.

Tvö lönd hafa vakið athygli umboðsmanna barna í Evrópu fyrir framúrskarandi starf í þágu barnalýðræðis m.a. með því að virkja ólíka aðila samfélagsins til að huga að viðhorfum barna. Þátttaka barna er nauðsynleg til að hægt sé að bæta aðstæður þeirra og þjónustu í samfélaginu. Þessi tvö lönd eru Norður-Írland og Írland. Dagana 14. – 19. apríl fór starfsfólk umboðsmanns barna í námsferð til systurembætta sinna þar til að kynna sér starf þeirra með þátttöku barna í samfélaginu.

Ferðin hófst í Belfast þar sem tók Patricia Lewsley-Mooney umboðsmaður barna á Norður-Írlandi (NICCY) tók á móti starfsfólki embættisins á skrifstofunni og kynnti það fyrir 26 starfsmönnum sínum. Eftir kynningu frá sviðsstjórum norður-írska embættisins komu fulltrúar 11 samtaka og rannsóknastofnana til að hlusta á Margréti Maríu flytja kynningu á starfi embættisins hér á Íslandi. Hún kom sérstaklega að lögfestingu Barnasáttmálans og voru viðstaddir mjög áhugasamir um þann þátt. Ennfremur hitti starfsfólk embættisins Jennifer McCann, Junior Minister og Gavin Robinson, borgarstjóra Belfast en hápunkturinn var fundur með nokkrum ungmennum frá ungmennaráði NICCY.

Næst lá leiðin til Dyflinnar þar sem umboðsmaður barna í Írlandi, Emily Logan hefur aðsetur. Þar átti Margrét María og starfsfólk hennar fund með lykilfólki umboðsmanns barna á Írlandi en á skrifstofunni þar starfa 15 manns Þá var einnig fundur með tveimur félagasamtökum sem vinna hvað mest með þátttöku og lýðræði barna.

Námsferðin var í alla staði mjög vel heppnuð og færði starfsfólki umboðsmanns barna margar hugmyndir að því hvernig efla má þátttökulýðræði meðal barna og unglinga hér á landi.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica