18. apríl 2018

Lýðræðisþátttaka barna og lækkun kosningaaldurs

Eftirfarandi grein eftir Salvöru Nordal, sem hægt er að lesa hér fyrir neðan í heild sinni, birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 14. apríl sl.

 

Lýðræðisþátttaka barna og lækkun kosningaaldurs

Salvör Nordal

Frumvarpi um lækkun kosningaaldurs sem rætt var á Alþingi fyrir páska var frestað og því ljóst að ekki verður af þeirri breytingu fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í vor. Lækkun kosningaaldurs hefur verið talin af þeim sem vinna með réttindi barna liður í að virkja börn til lýðræðisþátttöku í samfélaginu og hefur því til stuðnings m.a. verið bent á stigvaxandi sjálfsákvörðunarrétt barna og rétt þeirra til að láta skoðanir sínar í ljós, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans. Þó skoðanir meðal ungs fólks til málsins séu vafalaust nokkuð skiptar hafa mörg ungmennaráð og samtök ungs fólks lýst yfir stuðningi við lækkun kosningaaldurs í 16 ár.

Í almennri umræðu um lýðræðislega þátttöku almennings hér á landi hefur oft verið bent á að hún sé helst til kosningamiðuð - þ.e. snúist fyrst og fremst um hversu hátt hlutfall nýtir kosningaréttinn og mikilvægi þess að gera fólki kleift að kjósa um ýmis ágreiningsefni í samfélaginu. Minna fari aftur á móti fyrir áherslu á lýðræðislegt samráð og möguleikum á áhrifum á fyrri stigum ákvarðanatöku. Þetta er gott að hafa í huga í tengslum við lýðræðisþátttöku barna því þátttaka þeirra snýst um fleiri þætti en lækkun kosningaaldurs.

Í samtölum embættis umboðsmanns barna við ungmenni á undanförnum mánuðum hefur skýrt komið fram sú skoðun þeirra að verulega þurfi að auka fræðslu og menntun um lýðræði, stjórnkerfi og stjórnmál í efri bekkjum grunnskólans og í framhaldsskólum. Svo virðist sem sú kennsla sé mismunandi eftir skólum og segjast sum ungmenni nánast enga kennslu hafa fengið á þessu sviði fyrir 16 eða jafnvel 18 ára aldur. Á næstu árum gefst því tækifæri til að gera gangskör í þessum efnum og efla til muna samfélagslega menntun barna og búa þau undir virka lýðræðislega þátttöku í samfélaginu. Slík fræðsla er nauðsynleg hver svo sem kosningaaldurinn er.

Auk fræðslu innan skólakerfisins eru ýmsar aðrar leiðir færar til þess að virkja börn til þátttöku í sínu nærsamfélagi og þá ekki aðeins þau sem eru 16 ára eða eldri heldur einnig yngri börn. Má þar einkum nefna starf ungmennaráða hjá sveitarfélögum með þátttöku fjölbreytilegs hóps ungs fólks. Innan við helmingur sveitarfélaga á landinu hefur á að skipa ungmennaráðum en sum þeirra eru mjög virk í sínu nærumhverfi og hafa náð umtalsverðum áhrifum. Hér er um að ræða einstaklega mikilvæga leið fyrir ungt fólk að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og taka þátt í lýðræðislegu samtali utan við flokksátök hefðbundinna stjórnmála.

Samkvæmt 11. gr. æskulýðslaga skulu sveitarstjórnir hlutast til um að stofnuð séu ungmennaráð. Embætti umboðsmanns barna hvetur öll sveitarfélög í landinu til að setja á fót ungmennaráð á næstu misserum og telur raunar að skylda ætti sveitarfélög með lögum til að starfrækja ungmennaráð. Að sama skapi ættu sveitarstjórnir nú í aðdraganda sveitarstjórnarkosninganna í vor að leita sérstaklega eftir sjónarmiðum barna í þeirra nærsamfélagi og leita leiða til að ræða þau mál sem brenna á börnum við frambjóðendur hvers sveitarfélags. Það felast mikil verðmæti í sjónarmiðum barna og með því móti væri stuðlað að mikilvægri þátttöku þeirra í lýðræðissamfélagi sem myndi vera til þess fallið að stuðla að barnvænum sveitarfélögum um land allt.

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica