3. júní 2019

Langur biðtími hjá sýslumanni á höfuðborgarsvæðinu - bréf til ráðherra

Umboðsmaður barna sendi eftirfarandi bréf til dómsmálaráðherra. Tilefnið er meðal annars frétt á vefsíðu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að enn bíða til meðferðar öll mál sem hafa borist eftir 16. október. 2018.

Umboðsmaður barna sendi eftirfarandi bréf til dómsmálaráðherra dagsett 31. maí 2019. Tilefnið  er meðal annars frétt á vefsíðu sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram kemur að enn bíða til meðferðar öll mál sem hafa borist eftir 16. október. 2018. 

Bréfið er hér birt í heild sinni: 

Efni: Langur biðtími hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu

Samkvæmt upplýsingum sem settar eru fram á heimasíðu sýslumannsembættanna er nú langur biðtími eftir afgreiðslu mála hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfðuborgarsvæðinu um umgengni, forsjá og lögheimili barns. Þar kemur fram að enn bíða meðferðar öll mál sem borist hafa eftir 16. október 2018. Biðtími eftir afgreiðslu flóknari mála er því um sjö mánuðir.

Umboðsmaður barna hefur einnig fengið fjölda ábendinga frá einstaklingum sem eiga mál sem bíða úrskurðar sýslumanns og sem hafa lýst yfir áhyggjum vegna stöðunnar. Ljóst er að svo langur biðtími getur valdið þeim börnum sem í hlut eiga mikilli vanlíðan og kvíða en einnig getur það orðið til þess að ágreiningur milli foreldra vex og málin verða þannig erfiðari úrlausnar þegar þau koma loks til meðferðar. Þá er einnig ljóst að langur biðtími eykur álag á starfsfólk sýslumannsembætta sem sinnir mikilvægum verkefnum í þágu fjölskyldna í viðkvæmri stöðu. Umboðsmaður barna vill árétta að stjórnvöld eiga ávallt að setja hagsmuni barna framar öðrum hagsmunum, sbr. 3. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt haft að leiðarljósi. Í því felst m.a. að tryggja þarf börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu til að ná því markmiði.

Ófremdarástand ríkir nú í málum fjölskyldna vegna óviðunandi biðtíma hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Umboðsmaður barna skorar því á dómsmálaráðherra að grípa til tafarlausra aðgerða í því skyni að stytta þann langa biðtíma sem hefur myndast hjá fjölskyldusviði sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og setja þannig hagsmuni barna í forgang.

Virðingarfyllst, 

Salvör Nordal,

umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica