Kosningafundur barna
Efnt verður til kosningafundar barna í Norræna húsinu, miðvikudaginn 20. nóvember nk.
Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna efnir til sérstaks kosningafundar með fulltrúum þeirra framboða sem bjóða fram til næstu alþingiskosninga. Fundurinn verður haldinn þann 20. nóvember kl. 16:00 í Norræna húsinu, og markmiðið er að vekja athygli á málefnum barna. Kosningafundurinn er hugsaður sem vettvangur fyrir börn til þess að beina spurningum til frambjóðenda um helstu áherslur flokkanna í málefnum barna auk spurninga um þau málefni sem helst brenna á þeim. Fundurinn verður tekinn upp og gerður aðgengilegur á vefsíðu umboðsmanns barna, www.barn.is, að honum loknum. Eingöngu börn og ungmenni verða í salnum, meðal annars frá ungmennaráðum, og er nauðsynlegt að skrá sig fyrir fram á fundinn.
Spyrlar verða fulltrúar frá ráðgjafarhópi umboðsmanns barna og verður samtali við frambjóðendur skipt í þrjá hluta, þar sem þrír til fjórir frambjóðendur verða til svara hverju sinni. Ef tími gefst verður börnum í sal gefið tækifæri á því að spyrja frambjóðendur spurninga. Fundinum lýkur eigi síðar en kl. 17:15. Nákvæm dagskrá fundarins verður birt af vefsíðunni www.barn.is þegar nær dregur.
Einnig er vakin athygli á því að KrakkaRÚV og umboðsmaður barna standa fyrir krakkakosningum í fjölmörgum grunnskólum landsins og er þetta í sjöunda sinn sem þær fara fram. Markmið krakkakosninga er að kynna kosningarnar fyrir börnum og gefa þeim tækifæri á því að láta skoðanir sínar í ljós. Kosningarnar fara fram dagana 25.-27. nóvember. Niðurstöður verða kynntar í upphafi kosningasjónvarps RÚV þann 30. nóvember nk.