Könnun um skólaforðun
Velferðarvaktin kynnti nýlega niðurstöður könnunar um skólasókn og skólaforðun í grunnskólum landsins. Nánar er fjallað um niðurstöður könnunarinnar á vefsvæði Velferðarvaktarinnar en könnunin var framkvæmd í þeim tilgangi að afla upplýsinga frá skólastjórnendum sem nýst geta við stefnumótun í málefnum barna. Umboðsmaður barna telur niðurstöður könnunarinnar vera mikilvægt innlegg í umræðuna um stöðu barna í íslensku samfélagi enda hefur skort upplýsingar um umfang þessa vanda eins og kom fram í bréfi embættisins 19. mars 2018 til menntamálaráðherra, formanns sambands íslenskra sveitarfélaga og forstjóra Menntamálastofnunar.
Könnun Velferðarvaktarinnar leiðir meðal annars í ljós að gera má ráð fyrir að um 1.000 börn á grunnskólaaldri glími við skólaforðun eða um 2,2% nemenda. Meðal helstu ástæðna skólaforðunar nefna skólastjórnendur andlega vanlíðan nemenda eins og kvíða og þunglyndi og erfiðar aðstæður á heimilum þeirra.
Umboðsmaður barna vill árétta að börn eiga rétt á menntun og viðeigandi skólagöngu og tryggja þarf þeim börnum sem glíma við skólaforðun stuðning við hæfi enda er farsæl skólaganga lykilatriði fyrir velferð og framtíðarhorfur barna. Ljóst er að skólaforðun í grunnskóla er meðal þeirra atriða sem auka líkurnar á brotthvarfi nemenda úr framhaldsskóla og þá sýna rannsóknir að hagir og líðan ungmenna utan skóla eru lakari en þeirra sem eru í námi. Samkvæmt upplýsingum umboðsmanns barna eru jafnframt dæmi um börn á skólaskyldualdri sem eru alfarið utan skóla en slíkar aðstæður kalla á skjót viðbrögð og virkt samstarf aðila í nærumhverfi barns.
Að mati umboðsmanns er þörf á samræmdum viðmiðum um fjarvistarskráningar nemenda í grunnskólum til þess að fá nauðsynlegar upplýsingar um eðli og umfang vandans. Einnig þarf að efla stuðningsþjónustu innan skóla, tryggja þarf börnum í þessari stöðu nauðsynlega félags- og heilbrigðisþjónustu, og efla þarf stuðning við foreldra og heimili þeirra barna sem sækja ekki skóla vegna vanlíðunar eða heimilisaðstæðna.