19. febrúar 2025

Könnun um átraskanir meðal barna og ungmenna

Ráðgjafarhópur umboðsmanns barna sendi út könnun á grunnskóla landsins þar sem spurt var um átraskanir meðal barna og ungmenna. Könnunin var gerð í undirbúningi fyrir ráðstefnu BUGL um átraskanir barna og ungmenna sem fram fór í Salnum 31. janúar sl.

Í janúar sendi ráðgjafarhópur umboðsmanns barna út könnun á grunnskóla landsins þar sem spurt var um upplifanir og reynslu barna og ungmenna af átröskun. Svarendur voru tæplega 200 og voru niðurstöðurnar nýttar fyrir erindi ráðgjafarhópsins á ráðstefnu BUGL um átraskanir barna og ungmenna. Fulltrúar ráðgjafarhópsins á ráðstefnunni voru Agla, Aldís, Dagur, Kolbrún og Sigtryggur.

Buglmynd2

Fyrst var spurt hvort nemendur vissu hvað átröskun væri eða hver einkenni átröskunar eru. 63 prósent sem svöruðu játandi, 14 prósent voru óviss og 23 prósent vissu hvorki hvað átröskun væri né þekktu einkennin. Næst voru nemendur spurðir hvort þau hefðu fengið fræðslu um átröskun, og ef svo væri hvar þau hefðu fengið slíka fræðslu. 30% voru óviss um hvort þau hefðu fengið fræðslu og 23 prósent höfðu ekki fengið neina fræðslu. Þau sem höfðu fengið fræðslu höfðu flest fengið hana hjá skóla, eða 27 prósent. Einungis 3 prósent höfðu fengið fræðslu um átröskun hjá íþróttafélagi.

Bugl4

Mynd1

Þriðja spurningin var um hvort nemendur hefðu sjálf einhvern tímann verið með átröskunareinkenni. Tæplega helmingur svaraði neitandi og 37 prósent voru óviss. 14 prósent nemenda svöruðu játandi. Fjórða spurningin vakti mikla athygli hjá ráðgjafarhópnum, en þá var spurt þau sem svöruðu því játandi að hafa verið með átröskunareinkenni hvort þau hefðu einhvern tímann leitað sér hjálpar, fengið aðstoð eða meðferð við átröskun. 88 prósent sögðust ekki fengið aðstoð, hjálp eða sótt meðferð við einkennunum.

Mynd2

Þá gafst nemendum tækifæri á því að skrifa hvað það var sem þau töldu hafa haft mest áhrif og ýtt undir átröskun hjá sér. Sérstaklega ber að nefna að alls 63 prósent svarenda nefndu að samfélagsmiðlar hefðu haft áhrif.

Ráðgjafarhópurinn kom eftirfarandi á framfæri varðandi notkun samfélagsmiðla og þróun átröskunarsjúkdóma á ráðstefnunni:

„Það er staðreynd í dag að ungmenni eyða miklum tíma á samfélagsmiðlum og þar fer fram allskyns umræður, sérstaklega neikvæðar umræður um mat og líkama sem fara oft í dreifingu. Þá geta samfélagsmiðlar líka ýtt undir mikla útlitsdýrkun og háa fegurðarstaðla sem hafa virkilega neikvæð áhrif á börn og ungmenni.“

Þá setti ráðgjafarhópurinn fram tillögur um umbætur til þess að sporna við átröskunarsjúkdómum á meðal barna og ungmenna. Þar kom eftirfarandi fram:

„Okkar tillögur miðast að því að mikilvægt sé að auka fræðslu á meðal barna og ungmenna um átraskanir. Okkur langar til þess að leggja til að búið sé til fræðslumyndband sem dreift væri um samfélagsmiðla, í skóla, íþróttafélög og félagsmiðstöðvar, og að farið verði í að halda úti sterkur samfélagsmiðlum með fræðslu um átraskanir sem ná til barna og ungmenna. Það skiptir máli að sporna við því neikvæða upplýsingaflæði sem er núna á samfélagsmiðlum með jákvæðri fræðslu sem vekja áhuga barna og ungmenna. Þá myndum við líka vilja að reglulega væru gerðar kannanir á meða barna og ungmenna til þess að fá þeirra sýn og upplifanir svo hægt sé að vinna með þær betur. Það er mikilvægt að gera og framkvæma til þess að sjá árangur!“

Buglmynd3




Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica