24. apríl 2023

Innleiðing Barnasáttmálans - niðurstaða könnunar

Niðurstöður könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans er nú komin út og er aðgengileg hér á vefsíðu embættisins. Markmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um stöðu á innleiðingu Barnasáttmálans.

Í október 2022 sendi umboðsmaður barna bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana með beiðni um þátttöku í könnun um innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meginmarkmið hennar var að afla upplýsinga um stöðu innleiðingar Barnasáttmálans í íslenskri stjórnsýslu og fyrirkomulag samráðs stofnana við börn. Jafnframt er framkvæmdin liður í að meta ávinning af lögfestingu Barnasáttmálans og var þetta í annað sinn sem slík könnun er framkvæmd. Umboðsmaður barna vill færa sérstakar þakkir til ríkisstofnana og þess starfsfólks sem veittu verkefninu liðsinni sitt með því að svara könnuninni.

Könnunin er liður í því lögbundna verkefni embættisins, að fylgjast með þróun og túlkun Barnasáttmálans, samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, og því að hann sé virtur. Mikilvægur þáttur í innleiðingu Barnasáttmálans er að tryggja að hann sé með markvissum og kerfisbundnum hætti hafður að leiðarljósi við alla stefnumótun, lagasetningu og ákvarðanatöku sem varðar börn. Þekking á sáttmálanum og réttindum þeim sem þar er kveðið á um er jafnframt grundvallarforsenda þess.

Í skýrslunni er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum könnunarinnar en þar kemur meðal annars fram að þekking starfsfólks ríkisstofnana á Barnasáttmálanum og réttindum barna er takmörkuð. Hins vegar má greina skýran áhuga á því að bæta við þekkingu sína á því sviði og fá frekari fræðslu og kynningu frá embættinu, sem er afar jákvætt.

Þegar koma að húsnæðismálum þá töldu flestir sína stofnun vera stödd í húsnæði sem bauð upp á gott aðgengi fyrir börn. Hins vegar voru einungis 11% stofnana með einfaldan texta á vefsíðu sinni sem börn skilja og um 18% hafa gefið út kynningarefni sem er barnvænt. Til að börn geti leitað sjálfstætt og á sínum eigin forsendum að upplýsingum um eigin réttindi, þjónustu og önnur tiltæk úrræði þarf að upplýsingaefni að vera til staðar sem er á einföldu og auðskildu máli. Slíkt efni getur einnig nýst öðrum hópum og er ávinningurinn því mikill.

Embætti umboðsmanns barna er ávallt reiðubúið til samráðs og samstarfs um undirbúning og framkvæmd aðgerða um barnvænt aðgengi, samráð við börn og þátttöku þeirra í stefnumótun og ákvarðanatöku. Sé þess óskað, er embætti umboðsmanns barna jafnframt reiðubúið til að funda með stofnunum, til þess að ræða þær leiðir sem færar eru og þá möguleika sem felast í starfsemi hverrar stofnunar.

Niðurstaða könnunar um innleiðingu Barnasáttmálans


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica