Innleiðing Barnasáttmálans í stjórnsýslu
Í janúar 2020 sendi embætti umboðsmanns barna bréf til allra ráðuneyta og ríkisstofnana með beiðni um þátttöku í könnun. Meginmarkmið könnunarinnar var að afla upplýsinga um stöðu innleiðingar Barnasáttmálans í íslenskri stjórnsýslu og fyrirkomulag samráðs stofnana við börn.
Auk upplýsingaöflunar var einnig markmið könnunarinnar að fá yfirlit yfir þekkingu og vitund starfsmanna stofnana um sáttmálann og þau réttindi sem þar er kveðið á um. Framkvæmd hennar var jafnframt liður í því að meta ávinninginn af lögfestingu Barnasáttmálans.
Af niðurstöðum könnunarinnar má ráða að mikinn áhuga er að finna meðal stofnana og ráðuneyta um að taka næstu skref í innleiðingu Barnasáttmálans og að ákall er eftir fræðslu og leiðbeiningum sem gera þeim kleift að stíga þau skref.
Svör bárust frá 132 stofnunum við umboðsmaður barna færa þeim sérstakar þakkir fyrir þátttökuna og til starfsfólks þeirra sem veittu verkefninu liðsinni sitt með því að svara könnuninni. Niðurstöður könnunarinnar verða settar fram í skýrslu til forsætisráðherra í haust og verða jafnframt kynntar á opnum fundi ef aðstæður leyfa. Á haustmánuðum mun embættið standa að fræðslu til stofnana um innleiðingu Barnasáttmálans og setja fram leiðbeiningar um framkvæmd mats á áhrifum á börn.