26. ágúst 2022

Í upphafi skólaárs

Nú þegar allir skólar eru að hefja nýtt skólaár þá er ágætt að hafa nokkra hluti til hliðsjónar. 

Foreldrar eru mikilvægustu persónur í lífi barna

Nú þegar skólarnir eru að byrja er brýnt að foreldrar séu til staðar fyrir börnin og sérstaklega þau sem eru að hefja grunnskólagöngu í 1. bekk, byrja í nýjum skóla, í nýjum bekk eða takast á við aðrar breytingar. Þá er mikilvægt að fylgjast með líðan barna, ræða við þau og sýna skólagöngu þeirra áhuga. Foreldrar þurfa að vera öruggir með það að börnin viti hvert þau geti leitað ef þau þurfa aðstoð í skólanum og vera sjálfir tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að skólagangan gangi sem best.

Öllum aðilum skólasamfélagsins ber að leggja sitt af mörkum til þess að stuðla að og viðhalda góðum starfsanda og jákvæðum skólabrag.

Skólastjórum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Foreldrum ber með sama hætti að eiga samráð við skólann um skólagöngu barna sinna. Sama á við um aðra forsjáraðila barna í viðkomandi skóla.

Að byrja í grunnskóla

Fyrir foreldra þeirra barna sem nú eru að hefja grunnskólagöngu í fyrsta sinn vill umboðsmaður benda á eftirfarandi atriði.

Vonandi er tilhlökkun og eftirvænting efst í huga flestra barna en fyrstu skóladögunum getur jafnframt fylgt ákveðinn óróleiki og kvíði fyrir nýju skólaumhverfi. Þó flest börn séu vön skólagöngu í leikskóla er umhverfi grunnskólans nokkuð frábrugðið leikskólanum. Í grunnskóla reynir meira á sjálfstæði nemenda og því mikilvægt að foreldrar leiðbeini börnum til að þau verði betur undir það búin að takast á við nýtt umhverfi. Mikilvægt er að foreldrar ræði við börnin um þær reglur sem gilda almennt í samskiptum innan skólans eins og að fara að fyrirmælum, rétta upp hönd og koma vel fram við alla. Áður en byrjað er í skóla er einnig gott að börnin kunni að klæða sig úr og í föt sjálf, reima skóna og fara sjálf á klósettið.

Mikilvægt er að foreldrar velji örugga gönguleið fyrir börnin áður en þau byrja í skólanum og gangi með þeim nokkra daga áður en skólinn hefst og eftir að hann byrjar. Á umferðavefnum er að finna ýmis ráð, fræðslu og leiki er varða umferðaröryggi barna.

Á vefsíðu Heimilis og skóla er að finna ýmis góð ráð um samstarf foreldra og skóla.

Að byrja í framhaldsskóla – réttur til menntunar og framfærslu

Nú styttist í skólabyrjun í framhaldsskólum landsins. Af því tilefni vill umboðsmaður barna minna foreldra og aðra á réttindi barna í framhaldsskólum. Eftir að skyldunámi lýkur eiga öll börn rétt á menntun eða starfsþjálfun við hæfi og er sá réttur m.a. tryggður í 28. gr. Barnasáttmálans og lögum um framhaldsskóla.

Þó að börn ráði sjálf hvort og þá hvaða framhaldsskóla þau sækja um bera foreldrar samt sem áður mikla ábyrgð á framhaldsskólagöngu barna sinna. Foreldrum er skylt samkvæmt 28. gr. barnalaga að sjá til þess að börn njóti menntunar og starfsþjálfunar í samræmi við hæfileika þeirra og áhugamál og nái þannig að þroska hæfileika sína á þann máta sem best hentar hverju barni. Bera foreldrar því ábyrgð á því að veita börnum sem eru í framhaldsskóla þann stuðning og þá hvatningu sem þau þurfa. Foreldrar bera einnig ábyrgð á framfærslu barna sinna til 18 ára aldurs. Í því felst að foreldrum ber að sjá börnum sínum fyrir því sem þau þurfa til þess að lifa, þroskast og njóta réttinda sinna.

Foreldrar bera ábyrgð á kostnaði við skólagöngu

Námi í framhaldsskóla getur fylgt mikill kostnaður, bæði vegna innritunargjalda og bókakaupa. Dæmi eru um að foreldrar láti börn sín taka þátt í þessum kostnaði. Telur umboðsmaður barna því mikilvægt að árétta að foreldrar bera ábyrgð á því að tryggja börnum sínum menntun við hæfi og ber þeim því að greiða innritunargjöld í almenna framhaldsskóla sem og bækur, ritföng og annan nauðsynlegan kostnað fyrir börn sín. Ef foreldrar geta ómögulega staðið undir þessum kostnaði er hægt að leita eftir aðstoð hjá félagsþjónustu sveitarfélaga eða hjálparstofnunum.

Þegar nemendur eru orðnir 18 ára eru þeir fullorðnir og bera ábyrgð á sér sjálfir. Foreldrar ungmenna á aldrinum 18 til 20 ára bera þó enn vissa ábyrgð á því að stuðla að menntun barna sinna. Má í því sambandi benda á að samkvæmt 62. gr. barnalaga er hægt að úrskurða foreldri til að greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar þar til það nær 20 ára aldri.

netið

Netið samfélagsmiðlar og börn

Í apríl á þessu ári gáfu Umboðsmaður barna, Fjölmiðlanefnd og Persónuvernd út nýjar leiðbeiningar til foreldra, ábyrgðaraðila og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi sem varða netið, samfélagsmiðla og börn.


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica