Grunnskólar byrja
Nú þegar grunnskólar eru að hefjast á ný vill umboðsmaður barna minna á réttindi nemenda í grunnskólum.
Öll börn eiga rétt á kennslu við sitt hæfi í hvetjandi og öruggu námsumhverfi og viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og almennri vellíðan. Nemendur í grunnskóla eiga rétt á að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans og að komið sé til móts við námsþarfir þeirra án tillits til stöðu þeirra eða annarra þátta. Þau börn sem eiga erfitt með nám af einhverjum ástæðum eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi.
Brýnt er að foreldrar séu til staðar og aðstoði börn við að takast á við nýjar áskoranir eins og að hefja grunnskólagöngu, byrja í nýjum skóla, nýjum bekk eða aðrar breytingar í sínu lífi. Einnig er mikilvægt að fylgjast vel með líðan barna, ræða við þau og sýna skólagöngu þeirra áhuga. Foreldrar þurfa að vera öruggir með það að börnin viti hvert þau geti leitað ef þau þurfa aðstoð í skólanum og vera sjálfir tilbúnir að leggja sitt af mörkum til að skólagangan gangi sem best.
Öll börn og foreldrar skulu hafa aðgang að tengilið þjónustu í þágu farsældar barna eftir því sem þörf krefur. Upplýsingar um tengiliði ættu að vera aðgengilegar á vefsíðu hvers skóla.
Skólastjórum og kennurum ber að eiga samráð við foreldra um hegðun, líðan og samskipti barna þeirra. Foreldrum og forsjáraðilum ber með sama hætti að eiga samráð við skólann um skólagöngu barna sinna. Á vefsíðu Heimilis og skóla er hægt að finna ýmsan fróðleik um foreldrasamstarf og samvinnu við skóla.
Að byrja í grunnskóla
Vonandi er tilhlökkun og eftirvænting efst í huga flestra barna sem eru að hefja skólagöngu sína en fyrstu skóladögunum getur jafnframt fylgt ákveðinn óróleiki og kvíði fyrir nýju skólaumhverfi. Í grunnskóla reynir á sjálfstæði nemenda og því mikilvægt að foreldrar leiðbeini börnum til að þau verði betur undir það búin að takast á við nýtt umhverfi. Mikilvægt er að foreldrar ræði við börnin um þær reglur sem gilda almennt í samskiptum innan skólans eins og að fara að fyrirmælum, rétta upp hönd og koma vel fram við alla.
Umferðaröryggi
Það getur verið mikill erill í kringum grunnskóla, sérstaklega við upphaf skóladags. Mörg börn eru að stíga sín fyrstu skref ein í umferðinni og því verður að hafa í huga að athygli þeirra getur verið minni en þeirra sem meiri reynslu hafa. Þess vegna er mikilvægt að halda ökuhraða í lágmarki nálægt skólum. Þá er mikilvægt að foreldrar velji örugga gönguleið fyrir börnin áður en þau byrja í skólanum og gangi með þeim fyrstu dagana. Á umferðavefnum er að finna ýmis ráð, fræðslu og leiki er varða umferðaröryggi barna.
Að lokum óskar umboðsmaður barna öllum nemendum góðs gengis á nýju skólaári og minnir á að öll börn eiga rétt á að koma sínum skoðunum á framfæri innan skólans.