14. október 2015

Fundur með Útlendingastofnun

Að mati umboðsmanns hefur íslenska ríkið ekki staðið sig nægilega vel í því að tryggja rétttindi þessara barna. Óviðunandi er að börn þurfi að bíða í margar vikur eða mánuði eftir skólavist.

Undanfarnar vikur hefur verið mikil umræða um málefni hælisleitenda hér á landi og þá sérstaklega um skólagöngu barna sem eru í því ferli. Þann 9. september sl. sendi umboðsmaður barna bréf til Útlendingastofnunar vegna þessa, en bréfið má sjá hér á vef umboðsmanns barna. Bréfið var ítrekað 29. september og í kjölfarið var umboðsmanni boðið á fund með Útlendingastofnun.

Fundurinn fór fram 7. október sl. Þar ræddi umboðsmaður barna um þær áhyggjur sínar af stöðu barna sem koma hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd. Að mati umboðsmanns hefur íslenska ríkið ekki staðið sig nægilega vel í því að tryggja rétttindi þessara barna. Óviðunandi er að börn þurfi að bíða í margar vikur eða mánuði eftir skólavist. Útlendingastofnun sagði að verið væri að vinna í því að tryggja öllum börnum skólavist og að öll börnin yrðu komin í skóla innan nokkurra daga. Umboðsmaður barna mun halda áfram að fylgjast með þróun þessara mála.

Á fundinum var einnig rætt um stöðu fylgdarlausra barna, þ.e. barna sem koma til landsins án foreldra sinna. Umboðsmaður ítrekaði mikilvægi þess að tryggja sérstaklega réttindi barna í þessari stöðu, s.s. þegar kemur að aldursgreiningu. Þegar vafi er á aldri einstaklings ber ávallt að meta vafann honum í hag. Þá voru ýmis önnur mál rædd, svo sem staðan á drögum að nýju frumvarpi til útlendingalaga og rétt barna til að tjá sig við meðferð mála hjá Útlendingastofnun.

Umboðsmaður barna mun halda áfram að fylgjast með málaflokknum, enda er allt útlit fyrir að hælisleitendum muni fjölga enn frekar á næstu mánuðum og árum. Er því sérstaklega brýnt að tryggja að íslenska kerfið sé í stakk búið til þess að taka við þessum börnum og tryggja þeim þann stuðning og vernd sem þau eiga rétt á samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica