5. maí 2010

Frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, 495. mál.

Heilbrigðisnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, 495. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður í bréfi dags. 5. maí 2010.

Heilbrigðisnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, 495. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður í bréfi dags. 5. maí 2010.

Skoða frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, þskj. 861, 495. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

Nefndasvið Alþingis
Heilbrigðisnefnd
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 5. maí 2010

Efni: Frumvarp um breytingu á lögum nr. 55/1996, um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, 495. mál.

Vísað er til tölvupósts frá nefndasviði Alþingis, dags. 26. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að nota bæði gjafaegg og gjafasæði við glasafrjóvgun.

Undirrituð tekur undir rök forvera sinna um að leggja beri til grundvallar það sjónarmið að börn eigi rétt á að eiga foreldra fremur en að byggja á því að fullorðnir eigi rétt á því að eignast börn. Þessi rök eiga sér meðal annars stoð í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Með vísan til 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 7. gr. Barnasáttmálans telur umboðsmaður barna mikilvægt að tryggja rétt barna til að þekkja uppruna sinn. Réttur barns til þess að vita hvaðan það kemur, hver er líffræðilegur faðir þess eða móðir, á að ganga framar rétti foreldra til að halda slíku leyndu fyrir barninu. Telur umboðsmaður barna því rétt að breyta lögum um tæknifrjóvgun á þann veg að ákvæði sem tryggir kynfrumugjafa nafnleynd verði fellt niður.

Í 26. gr. laga um ættleiðingar nr. 130/1999  kemur fram að kjörforeldrar eigi að segja kjörbarni frá því að það sé ættleitt jafnskjótt og það hefur þroska til og aldrei síðar en við sex ára aldur. Mikilvægt er að sambærilegt ákvæði verði lögfest um börn sem getin eru með gjafasæði og/eða gjafaeggi. Annað gengur í berhögg við jafnræðisreglu 2. gr. Barnasáttmálans og 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Virðingarfyllst,

____________________________________________
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica