19. febrúar 1999

Frumvarp til útvarpslaga

Menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til útvarpslaga. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 19. febrúar 1999.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 19. febrúar 1999
Tilvísun: UB 9902/4.1.1

Efni: Frumvarp til útvarpslaga 

Þakkað er fyrir bréf, dagsett 10. febrúar, sem barst 15. sama mánðar, en með bréfinu er óskað eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.

Þau ákvæði frumvarpsins, sem fyrst og fremst snúa að börnum, er að finna í 14. og 20. gr. þess. Af þeim sökum verður umsögnin takmörkuð við þessar frumvarpsgreinar.

I

Í upphafi vil ég leyfa mér að vitna til bréfs míns, dagsett 12. nóvember 1996, til menntamálaráðherra en þar segir m.a.:

Það er skoðun mín að lög um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, sem og útvarpslög, þurfi að taka til endurskoðunar til að tryggja börnum betur þá vernd, sem ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995, kveður á um, og einnig til að uppfylla ákvæði 17. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem og ákvæði tilskipunar Evrópusambandsins (ESB/89/552).

Reyndar vakti ég þegar athygli á þessu atriði í umsögn minni til háttvirtrar menntamálanefndar um frumvarp til  laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, sbr. bréf  mitt dagsett 10. janúar 1995. Þrátt fyrir þessar ábendingar mínar sá menntamálanefnd ekki ástæðu til, á þeim tíma, að breyta  því frumvarpi, sbr. lög nr. 47/1995. Frumvarp til breytinga á  þessum lögum var lagt fram á Alþingi vorið 1997 en hlaut ekki afgreiðslu.

 II

Í  1. mgr. 14. gr. fyrirliggjandi frumvarps til nýrra útvarpslaga er að finna svofellt ákvæði:  Sjónvarpsstöðvum er óheimilt að senda út efni, þar á meðal auglýsingar, um tilefnislaust ofbeldi með trúverðugum blæ eða með klámfengnum myndum á þeim dagskrártíma og á þann hátt að öðru leyti að á því sé veruleg hætta að börn sjái viðkomandi efni.

Eins og þegar hefur komið fram beindi ég þeim tilmælum til menntamálaráðherra í bréfi, dagsettu 12. október 1996, að útvarpslög yrðu endurskoðuð og tekin yrði þar inn ákvæði sem tryggðu betur rétt barna til verndar í samræmi við áðurnefnt stjórnarskrárákvæði, sem og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í bréfinu sagði ennfremur:

Ég er þeirrar skoðunar að ákvæði 1. mgr. 22. gr. tilskipunar Evrópusambandsins frá árinu 1989, og ég hef áður minnst á, hafi ekki verið tekin upp í íslensk lög þrátt fyrir skuldbindingar okkar í þeim efnum. Í þessu ákvæði segir:  “Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að sjónvarpssendingar, sem lögsaga þeirra nær yfir, innihaldi ekki dagskrárefni, sem gæti haft  alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, einkum og sér í lagi dagskrár, sem í felst  klám eða tilefnislaust ofbeldi. - Þetta ákvæði skal einnig ná til dagskrárefnis, sem líklegt er til þess að skaða líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, nema þegar tryggt er, með vali á útsendingartíma eða með einhverjum tæknilegum ráðstöfunum, að börn og ungmenni á því svæði, er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar.

Þegar ákvæði 1. mgr. 14. gr. fyrirliggjandi frumvarps er borið saman við  framangreint ákvæði 22. gr. tilskipunarinnar verður ekki annað séð en að verið sé að þrengja þetta ákvæði tilskipunarinnar, en hvaðan sú heimild kemur er hins vegar ekki ljóst.

Mín skoðun er sú að  inn í frumvarp til útvarpslaga eigi að taka orðrétt framangreint efni tilskipunarinnar enda ber okkur að standa við skuldbindingar þær sem við höfum gengist undir með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, jafnt á þessu sviði sem öðrum. Sérstakar athugasemdir geri ég við orðalag, sem er að finna á tveimur stöðum í fyrrnefndri frumvarpsgrein, þ.e. annars vegar orðalagið með trúverðugum blæ og hins vegar orðalagið veruleg hætta. Ég lít svo á að orðlag þetta fari beinlínis í bága við efni framangreindrar tilskipunar Evrópusambandsins og dragi úr þeirri vernd sem fyrrnefnt stjórnarskrárákvæði mælir skýrlega fyrir um.

Ég legg því eindregið til að ofangreint orðalag verði fellt brott úr frumvarpstextanum og  þess í stað verði fylgt nákvæmar orðalagi tilskipunar ESB/89/552.

III

Þá tel ég  nauðsynlegt að inn í frumvarp til útvarpslaga verði tekið sérstakt ákvæði um viðurlög við broti á 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins en samkvæmt 28. gr. frumvarpsins er einungis gert ráð fyrir að unnt sé að beita fésektum vegna brota á 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins.

Varðandi  ákvæði 2. mgr. 14. gr. frumvarpsins vil  ég lýsa yfir ánægju með efni þess og vænti þess, verði frumvarp þetta að lögum, að reglugerð sem ætlað er að setja samkvæmt þessu ákvæði líti dagsins ljós, sem allra fyrst, því þörfin er brýn.

IV

Þá eru ákvæði 20. gr. frumvarpsins mikilvæg en eins og fram kemur í athugasemdum er fylgja þeirri frumvarpsgrein færist það stöðugt í vöxt að auglýsingum sé beint til barna, sérstaklega. Embætti mínu hafa borist fjölmargar ábendingar um slíkar auglýsingar, fyrst og fremst á sjónvarpsstöðvunum en jafnframt í dagblöðum og tímaritum. Einnig hefur það augljóslega færst í vöxt að börn leiki í allskyns auglýsingum hvort sem þær eiga að höfða til barna eða fullorðinna. Í þessum tilvikum þarf að fara varlega og gæta að velferð barna í hvívetna. Í 28. gr. frumvarpsins er ekki að finna ákvæði um viðurlög  við brotum á 20. gr. frumvarpsins. Ég tel það hins vegar nauðsynlegt til að veita útvarpsstöðvum aðhald í þessum efnum að öðrum kosti hafa ákvæði þessi litla þýðingu

V

Að lokum vil ég leyfa mér að  koma þeirri ábendingu á framfæri til háttvirtrar menntamálanefndar að leitað verði eftir áliti Félags íslenskra barnalækna á efni 14. og 20. gr. frumvarpsins, en af augljósum ástæðum hafa  barnalæknar  ýmislegt til mála að leggja hvað velferð barna viðkemur.

Á síðasta ári átti embætti mitt ánægjulegt samstarf við Félag íslenskra barnalækna og varð afrakstur þess samstarfs útgáfa á bæklingi sem ber heitið: Hvað er til ráða? Áhrif ofbeldis í sjónvarpi á börn.  Bækling þennan fá allir foreldrar afhentan sérstaklega þegar þeir koma með barn sitt í 3 ½  árs skoðun á heilsugæslustöðvar um land allt. Til fróðleiks fylgja hér með sýnishorn af bæklingi þessum.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal

 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica