23. febrúar 2004

Frumvarp til umferðarlaga

Samgöngunefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til umferðarlaga, 464. mál, öryggi barna, gjöld, EES-reglur o.fl. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 23. febrúar 2004.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 30. mars 2004
Tilvísun: UB 0403/4.1.1

Efni: Frumvarp til umferðarlaga

Vísað er til bréfs samgöngunefndar Alþingis, dagsett 9. febrúar 2004, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.

Í 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 71. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987. Þar segir í lok 2. mgr., að ef sérstakur öryggis- og verndarbúnaður ætlaður börnum sé ekki í bifreið, skuli nota öryggisbelti fyrir barnið. Þetta ákvæði er þegar í núgildandi umferðarlögum, og því ekki nýtt af nálinni. Ég geri að tillögu minni, að tækifærið verði nýtt til að fella framangreindan lokamálslið 2. mgr. 71. gr. umferðarlaga út úr lögunum. Tillöguna set ég fram með hagsmuni barnanna í huga og í ljósi þess að ég tel aldrei réttlætanlegt að slaka á öryggiskröfum þegar um er að ræða börn sem farþega í bifreiðum. Börnin eiga rétt á að njóta alls þess öryggis og þeirrar verndar, sem völ er á við þessar aðstæður.

Þá vil ég jafnframt benda á mikilvægi þess að nákvæmlega sé skilgreint hvað átt sé við með „viðurkenndum“ barnabílstól. Hvorki í frumvarpstextanum sjálfum né í athugasemdum, sem fylgja frumvarpinu, er að finna skýringar á hvað telst vera „viðurkenndur“ barnabílstóll. Þetta þarf að vera hafið yfir allan vafa.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica