Frumvarp til laga um umboðsmann barna
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 16. mars 2004
Tilvísun: UB 0403/4.1.1
Efni: Frumvarp til laga um umboðsmann barna
Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 27. febrúar 2004, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um umboðsmann barna, nr. 83/1994, að við 8. gr. laganna bætist ákvæði er leggur þær skyldur á allsherjarnefnd Alþingis að taka árlega skýrslu umboðsmanns barna til forsætisráðherra, til athugunar og hafi frumkvæði um umræðu um hana á Alþingi.
Ég vil strax í upphafi taka fram að ég fagna framkomnu frumvarpi og vonast svo sannarlega til að það fái framgang hjá hinu háa Alþingi.
Ég er ekki í vafa um að almennar umræður á Alþingi um skýrslu umboðsmanns barna til forsætisráðherra eiga jafn mikinn rétt á sér og umræður um hvers konar aðrar skýrslur opinberra aðila. Kominn er tími til að málefni barna og ungmenna fái þann sess, sem þeim ber, í þingsölum Alþingis. Börn og ungmenni eru einstaklingar með sín sérstöku réttindi og þeim ber að sýna virðingu. Þau eru borgarar samfélagsins þótt þau fái ekki kosningarétt fyrr en þau verða 18 ára. Því er bæði eðlilegt og brýnt, að umræður um málefni barna og ungmenna á grundvelli árlegrar skýrslu umboðsmanns barna verði fastur liður í störfum Alþingis. Eins og fram kemur í 1. mgr. 8. gr. núgildandi laga um umboðsmann barna skal prenta skýrsluna og birta opinberlega fyrir 1. september ár hvert. Með vísan til fyrirliggjandi frumvarps vil ég því leyfa mér að nota þetta tækifæri og leggja til við háttvirta allsherjarnefnd, að tiltekinn dagur, t.d. 20. nóvember ár hvert verði sérstaklega helgaður framangreindri umræðu, en þennan dag árið 1989 var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.
Með vísan til framangreinds vil ég endurtaka ánægju mína með framkomið frumvarp. Ég tel það vera fagnaðarefni fyrir embætti umboðsmanns barna, og um leið mikinn virðingarvott við börn og unglinga þessa lands, verði það að lögum.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal