Frumvarp til laga um þungunarrof - samráðsgátt
Eftirfarandi umsögn um frumvarp til laga um þungunarrof sendi umboðsmaður barna á samráðsgátt stjórnvalda þann 4. október 2018.
Umsögn umboðsmanns barna
Velferðarráðuneytið
Reykjavík, 4. október, 2018
Efni: Frumvarp til laga um þungunarrof
Velferðarráðuneytið hefur birt í samráðsgátt Stjórnarráðsins frumvarp til laga um þungunarrof. Umboðsmaður barna hefur áður látið málið til sín taka en hann sendi inn umsögn dags. 27. apríl 2016 í kjölfar fréttar á vef velferðarráðuneytisins, dags. 7. apríl 2016, þar sem óskað var eftir umsögnum og tillögum að breytingum á gildandi lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fósturyeðingar og ófrjósemisaðgerðir nr. 25/1975.
Ábending umboðsmanns varðaði sjálfsákvörðunarrétt stúlkna þar sem lagt var til að breyta 3. tl. 2. mgr. 13. gr. núgildandi laga á þann veg að tekið yrði skýrt fram að stúlkur á öllum aldri hafi sjálfsákvörðunarrétt um það hvort þær kjósi að fara í fóstureyðingu eða ekki. Að mati umboðsmanns var hægt að túlka umrætt ákvæði þannig að foreldrar þurfi almennt að samþykkja fóstureyðingar hjá stúlkum undir 16 ára aldri, sem samræmist að mati umboðsmanns barna ekki sjálfstæðum rétti barna til friðhelgi einkalífs.
Í frumvarpinu sem nú liggur fyrir er tekið fram í greinargerð undir 5. kafla „Samráð“ að velferðarnefnd sé sammála umboðsmanni í þessum efnum og hafi því lagt til að umrætt ákvæði verði fellt úr lögum og lög um réttindi sjúklinga, þ.e. 25. og 26. gr. með hliðsjón af lögræðislögum og ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu gildi um rétt stúlkna til að taka ákvarðanir um þungunarrof. Umboðsmaður telur framangreinda leið ekki vera til þess fallna að tryggja stúlkum þann sjálfsákvörðunarrétt um þungunarrof sem hann lagði til í áðurnefndri ábendingu.
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 kemur fram að ef sjúklingur er yngri en 16 ára þá skulu upplýsingar veittar foreldrum. Einnig kemur fram í 1. mgr. 26. gr. laganna að foreldrar sem fara með forsjá barns skulu veita samþykki fyrir nauðsynlegri meðferð barns yngra en 16 ára. Umboðsmaður barna telur að með því að taka núgildandi ákvæði alfarið út og vísa til laga um réttindi sjúklinga sé ekki verið að auka sjálfsákvörðunarrétt barna. Þvert á móti er hægt að túlka framangreindar greinar í lögum um réttindi sjúklinga á þá leið að foreldrar þurfi að veita samþykki fyrir umsókn um þungunarrof, sé stúlkan undir 16 ára aldri. Í núgildandi ákvæði kemur fram að foreldrar skuli taka þátt í umsókn um fóstureyðingu með stúlku nema sérstakar ástæður mæli gegn því. Enga sambærilega undanþágu er að finna í lögum um réttindi sjúklinga. Ef frumvarpið verður samþykkt í núverandi mynd má því færa rök fyrir því að verið sé að þrengja enn frekar að sjálfsákvörðunarrétti barna að þessu leyti og kveða á um að forsjáraðilar fái ávallt vitneskju um fyrirhugað þungunarof, óháð aðstæðum hverju sinni.
Miðað við það sem að framan greinir er ljóst að ekki var tekið fullt tillit til fyrri athugasemda umboðsmanns barna. Umboðsmaður barna telur að kveða skuli skýrt á um það í frumvarpinu að stúlkur á öllum aldri eigi sjálfsákvörðunarrétt um það hvort þær vilji láta framkvæma þungunarrof eða ekki. Með því móti kæmu engin túlkunaratriði til skoðunar þegar kemur að rétti stúlkna til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um þungunarrof.
Umboðsmaður er tilbúinn til að koma á fund og ræða málin nánar sé þess óskað.
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna