9. desember 2003

Frumvarp til laga um meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög, 10. mál, brottvísun og heimsóknarbann.  Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 9. desember 2003.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 9. desember 2003
Tilvísun: UB 0312/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um meðferð opinberra mála og almenn hegningarlög 

Vísað er til bréfs allsherjarnefndar Alþingis, dagsett 29. október 2003, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.

Vegna vinnuálags reynist ekki unnt að veita ítarlega umsögn um ofangreint  frumvarp. Ég vil þó taka fram að ég tel það sannarlega spor í rétta átt, í baráttunni gegn því böli, sem ofbeldi á heimilum er börnum, sem öðru heimilisfólki. Í þessu sambandi þykir mér einnig mikilvægt að leggja áherslu á, að samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna er litið á barn sem sjálfstæðan einstakling með eigin réttindi. Með vísan til efnis ofangreinds frumvarps vil ég leyfa mér að vekja sérstaka athygli háttvirtrar allsherjarnefndar á 16. gr. sáttmálans þar sem segir: Eigi má láta barn sæta gerræðislegum eða ólögmætum afskiptum af einkalífi þess, fjölskyldu, heimili eða bréfum, né ólögmætri árás á sæmd þess eða mannorð. – Barn á rétt á vernd laganna fyrir slíkum afskiptum og árásum. Þessi sjálfstæði réttur barns til að njóta friðhelgi einkalífs á ekki aðeins við gagnvart opinberum aðilum eða aðilum utan fjölskyldunnar, heldur er mikilvægi hans ekki síst fólgið í því að hann gildir innan veggja heimilisins. Þetta má ekki gleymast þegar fjallað er um ofbeldi á heimilum. Í framhaldi af þessu vil ég og minna á skyldur íslenska ríkisins samkvæmt 19. gr. Barnasáttmálans, þar sem segir m.a.: Aðildarríki skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar ... til að vernda barn gegn hvers kyns líkamlegu og andlegu ofbeldi, meiðingum, misnotkun, vanrækslu, skeytingarleysi, illri meðferð eða notkun, þar á meðal kynferðislegri misnotkun, meðan það er í umsjá annars eða beggja foreldra, lögráðamanns eða lögráðamanna, eða nokkurs annars sem hefur það í umsjá sinni.

Að lokum vil ég geta þess að nýlega gaf embætti mitt út skýrslu um rétt barna til friðhelgi einkalífs, sjá www.barn.is  Ég hvet háttvirta allsherjarnefnd til að kynna sér efni þessarar skýrslu.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal


 


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica