12. febrúar 1999

Frumvarp til laga um meðferð opinberra mála

Allsherjarnefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um meðferð opinberra mála. Umsögn sína veitti umboðsmaður með bréfi, dagsettu 12. febrúar 1999.

Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík

Reykjavík, 12. febrúar 1999
Tilvísun: UB 9902/4.1.1

 Efni: Frumvarp til laga um meðferð opinberra mála 

Með bréfi dagsettu 8. þessa mánaðar barst mér frumvarp til laga um meðferð opinberra mála til umsagnar.

Eins og fram kemur í  almennum athugasemdum við frumvarp þetta lagði ég til við dómsmálaráðherra, á haustdögum 1997, breytingar á lögum um meðferð opinberra mála, er ætlað var að styrkja réttarstöðu barna, sem eru þolendur kynferðisbrota.

Þessar tillögur mínar verða  raktar til niðurstaðna í skýrslu, sem unnin var fyrir mig um kynferðisbrot gegn  börnum og ungmennum,  en þar voru borin saman lagaákvæði er um þetta fjalla á Íslandi, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Skýrsla þessa ber heitið Heggur sá er hlífa skyldi. Auk tillagna til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála hef ég einnig lagt til við dómsmálaráðherra breytingar á almennum hegningarlögum (fyrningarfrestur o.fl.),skaðabótalögum (ákvörðun miskabóta) og lögum  um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota (breyting á skilyrðum til bóta). Allar þessar tillögur mínar miða að því að bæta réttarstöðu barna sem þolenda kynferðisbrota.

Þær breytingar, sem lagðar eru til með ofangreindu frumvarpi og  varða réttarstöðu barna, eru í fullu samræmi við tillögur mínar til dómsmálaráðherra, sbr. bréf mitt, dagsett 15. september 1997. Eðli máls samkvæmt  fagna ég því framkomnu frumvarpi og tek heilshugar undir þær breytingar, sem þar eru lagðar til, á núgildandi löggjöf.

Að gefnu tilefni vil ég lýsa  sérstakri ánægju minni með ákvæði 14. gr. frumvarpsins er kveður á um fortakslausa skyldu lögreglu til að tilnefna brotaþola réttargæslumann ef í hlut á barn sem er yngra en 18 ára þegar rannsókn hefst, enda leiki grunur á að það hafi orðið fyrir kynferðisbroti. En ekki  verður fram hjá þeirri staðreynd  litið að hér er um að ræða einstaklinga sem lítils mega sín og  þessi réttindi þeim til handa þar af leiðandi  afar mikilvæg.

Ég vil ekki síður lýsa ánægju minni með 23. gr. frumvarpsins,2. mgr. a., þar sem segir: Ef rannsókn beinist að broti á XXII. kafla almennra hegningarlaga og brotaþoli hefur ekki náð 18 ára aldri þegar rannsókn máls hefst ber lögreglu að leita atbeina dómara sem sér um að taka skýrslu af honum.

Ástæðan fyrir því að leggja þarf skyldu á herðar lögreglu til að leita atbeina dómara í þessum tilvikum er sú að lögreglan hefur einhverra hluta vegna ekki notfært sér heimild  þá sem er að finna  í niðurlagi 1. mgr. 74. gr. núgildandi laga. Óumdeilt er að hafi skýrsla verið tekin af barni fyrir dómi eru minni líkur á að barn þurfi að koma að nýju fyrir dóm og gefa skýrslu við aðalmeðferð máls. Með tilliti til hagsmuna barna, sem þolenda kynferðisbrota, er sérstök ástæða til þess að draga úr möguleikum á því að þau þurfi tvisvar að gefa skýrslu, fyrst hjá lögreglu og síðan fyrir dómi.  Í þessu sambandi vil ég  einnig leyfa mér að vekja athygli á 18. gr. frumvarpsins en þar er gert ráð fyrir að dómari geti kvatt kunnáttumann sér til aðstoðar við skýrslutöku.  Í athugasemdum við þessa frumvarpsgrein kemur fram að hér er t.d. átt við sérþjálfaðan lögreglumann.

Að öðru leyti  leyfi ég mér að vísa til  rökstuðnings sem er að finna í  almennum athugasemdum frumvarpsins sem og við einstakar greinar þess.

Von mín er sú að hið háa Alþingi samþykki frumvarpið eins og það liggur fyrir á yfirstandandi þingi.

Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica