11. maí 2015

Frumvarp til laga um meðferð einkamála o.fl. (aukin skilvirkni, einfaldari reglur), 605. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um meðferð einkamála o.fl. (aukin skilvirkni, einfaldari reglur), 605. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður með tölvupósti dags. 11. maí 2015.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um meðferð einkamála o.fl. (aukin skilvirkni, einfaldari reglur), 605. mál. Umsögn sína veitt umboðsmaður með tölvupósti dags. 11. maí 2015.

Skoða frumvarp til laga um meðferð einkamála o.fl. (aukin skilvirkni, einfaldari reglur), 605. mál.
Skoða feril málsins.

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 11. maí 2015

Efni: Frumvarp til laga um meðferð einkamála o.fl. (aukin skilvirkni, einfaldari reglur), 605. mál

Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 29. apríl sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um ofangreint frumvarp. Vegna anna hafði umboðsmaður því miður ekki tök á því að fara eins vel yfir frumvarpið og hann hefði viljað, en hann vill þó koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.

Í 18. gr. frumvarpsins er lagt til að mælt verði fyrir um að skýrslutaka af brotaþola, yngri en 15 ára, skuli að jafnaði fara fram í sérútbúnu húsnæði, nema hagsmunir brotaþola krefjist þess að annar háttur verði hafður á. Umboðsmaður barna hefur margoft bent á að ekki sé rétt að það sé undir hverjum og einum dómara komið hvort skýrslutaka af börnum fari fram í sérútbúnu húsnæði eða ekki, enda er þá hætta á að börnum verði mismunað með ómálefnalegum hætti. Telur hann því sérstaklega jákvætt að stefnt sé að því að allar skýrslutökur af ungum brotaþolum skuli fara fram sérútbúnu húsnæði, nema annað sé talið viðkomandi barni fyrir bestu. Hann telur þó ástæðu til að ganga lengra og leggja einnig þá skyldu á dómara að kveða til einstakling með sérþekkingu á málefnum barna til þess að aðstoða við skýrslutökuna. Sömuleiðis myndi umboðsmaður vilja sjá sambærilega reglu gilda um skýrslutöku af börnum sem verða vitni af ofbeldi eða öðrum alvarlegum brotum, enda er ljóst að slíkar skýrslutökur eru oft ekki síður íþyngjandi fyrir börn.

Áður en núgildandi lög um meðferð sakamála nr. 88/2008 tóku gildi var miðað við að taka skyldi skýrslu af öllum börnum undir 18 ára aldri fyrir dómi við rannsókn kynferðisbrota. Nú er staðan hins vegar sú að börn á aldrinum 15 til 18 ára þurfa gefa skýrslu bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Umboðsmaður barna og fleiri aðilar gagnrýndu þessa breytingu harðlega. Þó að börn öðlist stigvaxandi færni og getu með auknum aldri og þroska er ljóst að það getur verið verulega íþyngjandi fyrir börn á öllum aldri að þurfa síendurtekið að rifja upp brot sem hafa valdið þeim miklum þjáningum. Má í því sambandi minna á að skylt er að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að vernda réttindi og hagsmuni barna á öllum stigum sakamáls og taka sérstakt tillit til þarfa barna sem brotaþola, sbr. meðal annars valfrjálsa bókun við Barnasáttmál Sameinuðu þjóðanna um sölu á börnum, barnavændi og barnaklám, sem lögfest var samhliða Barnasáttmálanum með lögum nr. 19/2013. Einnig má benda á samning Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi og kynferðislegri misbeitingu. Í honum er lögð áhersla á að skýrslur af börnum séu teknar í sérútbúnu húsnæði sem henti þörfum þeirra og að sérhæfðir rannsakendur taki skýrslur af börnum. Umboðsmaður barna telur því fulla ástæðu til að breyta lögum um meðferð sakamála og miða við að skýrslutökur af öllum börnum, yngri en 18 ára, skuli fara fram í sérútbúnu húsnæði.

Í 34. gr. frumvarpsins er fjallað um birtingu dóma og reglur um afmáningu viðkvæmra upplýsinga sem gengt geta aðila eða aðra við málið. Ljóst er að birting dóma þar sem börn koma við sögu getur verið viðkvæm og meiðandi fyrir viðkomandi barn. Er því brýnt að vandað verði betur til verka við að afmá atriði úr dómum sem geta tengt börn við sakarefnið. Ennfremur gæti verið ástæða til að afmá önnur atriði úr dómum sem ætla má að geti haft neikvæð áhrif á líðan brotaþola, jafnvel þó umrædd atriði tengi barnið ekki beinlínis við sakarefnið. Til dæmis gæti verið ástæða til að takmarka nákvæmar lýsingar á broti, t.d. í kynferðisbrotamálum. Á það ekki síst við þegar barn býr í litlu samfélagi eða aðstæður eru að öðru leyti þannig að auðvelt er að rekja dóminn til viðkomandi barns. Þá má einnig benda á að fjölmiðlar birta oft eða lesa upp nákvæmar lýsingar úr dómum, en slíkt getur verið mjög skaðlegt fyrir þau börn sem eru aðilar að málinu eða tengjast því með öðrum hætti. Sömuleiðis geta of nákvæmar lýsingar á hrottalegum brotum haft neikvæð áhrif á börn almennt, en ekki má gleyma því að efni fjölmiðla nær líka til barna, hvort sem þau sækjast eftir því eða ekki.

Samkvæmt 10. gr. laga um meðferð sakamála er dómara heimilt að ákveða að þinghald skuli háð fyrir luktum dyrum ef sakborningur er undir 18 ára aldri. Þegar börn hafa brotið af sér er mikilvægt að gripið sé inn í með uppbyggilegum hætti sem er til þess fallinn að efla sjálfsmynd þeirra og draga úr líkunum á því að þau brjóti af sér aftur, sbr. meðal annars 40. gr. Barnasáttmálans. Harkaleg viðbrögð og umfjöllun um afbrot barna getur verið skaðleg og aukið líkurnar á áframhaldandi brotum. Telur umboðsmaður barna því ástæðu til að tryggja börnum sem hafa verið ákærð fyrir afbrot sérstaka vernd og kveða á um það í lögum að þinghöld skuli ávallt vera lokuð þegar sakborningur er undir 18 ára aldri.

Virðingarfyllst,
Margrét María Sigurðardóttir,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica