Frumvarp til laga um mannanöfn, 9. mál
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um mannanöfn, 9. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 22. október 2018.
Skoða frumvarpið.
Skoða feril málsins.
Umsögn umboðsmanns barna
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis
Reykjavík, 22. október 2018
Efni: Frumvarp til laga um mannanöfn, 9. mál.
Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 20. september sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.
Umboðsmaður barna lýsir yfir ánægju með að tekið hafi verið tillit við athugasemdir við fyrri gerð frumvarpsins í 4. mgr. 3. gr. á þann veg að stigvaxandi sjálfsákvörðunarréttur barna í þessum efnum er virtur að því marki að breyting á nafni barns undir 18 ára aldri sé háð því skilyrði að barnið samþykki breytinguna, hafi það náð aldri og þroska til að taka afstöðu til hennar. Er slík breyting í samræmi við 12. gr. Barnasáttmálans, sbr. lög nr. 19/2013. Með breytingunni er horfið frá núgildandi fyrirkomulagi sem kveður á um 12 ára aldursmark sem er ánægjulegt þar sem börn mun yngri en 12 ára geta haft sterka skoðun á breytingu á nafni þeirra.
Umboðsmaður barna telur jafnframt mikilvægt að huga að stigvaxandi sjálfsákvörðunarrétti barna þegar óskað er eftir nafnbreytingu ólögráða einstaklings. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins er nafnbreyting ólögráða einstaklings háð því skilyrði að forsjármenn standi að beiðni um nafnbreytinguna. Að mati umboðsmanns ætti barn að geta sjálft staðið að nafnabreytingu án aðkomu foreldra eða forsjáraðila þrátt fyrir að vera ekki orðið lögráða þegar barnið hefur náð ákveðnum aldri og þroska enda er nafn stór hluti sjálfsmyndar hvers einstaklings. Í þessu samhengi má benda á að löggjafinn hefur tekið afstöðu til þess í vissum tilfellum að börn undir lögaldri geti tekið á sig ákveðnar skyldur og fengið aukin réttindi án sérstakrar aðkomu forsjáraðila. Sem dæmi má nefna að barn verður sjálfstæður aðili máls í ákveðnum tilvikum í barnaverndarmálum 15 ára, hefur sjálfstæðan aðgang að öllum gögnum málsins og getur átt rétt á aðstoð lögmanns. Einnig verður barn sakhæft 15 ára og kynferðislegur lágmarksaldur miðast við sama aldur. Við 16 ára aldur verða unglingar sjálfstæðir þjónustuþegar heilbrigðiskerfisins og geta því leitað til læknis án samþykkis eða vitundar foreldra/forsjáraðila og læknir er skyldugur til að upplýsa þá um ástand, meðferð og horfur þeirra.
Að öðru leyti er vísað til umsagnar embættisins dags. 5. febrúar 2018 þar sem fjallað er um nauðsyn þess að kveðið sé á um ákveðið eftirlit með nafngiftum barna en þar segir:
"Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að foreldrum eigi almennt að treysta til að velja börnum sínum nöfn sem eru þeim ekki til ama. Telja frumvarpshöfundar að komi upp slík tilfelli hafi þeir aðilar sem eiga að tryggja börnum vernd nægar heimildir í lögum til að grípa til viðeigandi ráðstafana og aðstoða foreldra í foreldrahlutverki þeirra. Því til stuðnings er vísað til þess að úrskurðir mannanafnanefndar um slík álitaefni séu örfáir. Gerir frumvarpið ekki ráð fyrir því að neinum opinberum aðila verði falið það vald að neita foreldrum um skráningu nafns og þá er ekki gert ráð fyrir því að hægt verði að knýja fram breytingar á nafni barns. Umboðsmaður barna tekur undir þau sjónarmið að flestir foreldrar séu færir um að gæta hagsmuna barna sinna og velja nafn barna sinna af alúð. Þó ber að árétta að jafnvel þó svo að um örfá tilvik væri að ræða eru einhver tilvik til staðar og um er að ræða mikilvæga hagsmuni barns. Það að bera nafn sem er barni til ama getur haft í för með sér mikla vanlíðan og neikvæð áhrif á sjálfsmynd þess. Umboðsmaður vill benda á sænska löggjöf á þessu sviði en samkvæmt 28§ sænsku laganna um mannanöfn, nr. 2016:1013, þurfa foreldrar að sækja um skráningu á eiginnafni barns hjá Skatteverket. Þá hefur Skatteverket jafnframt heimild til að synja skráningu nafns ef það er talið líklegt til að vekja hneykslan, valda barni sem það á að bera óþægindum, eða er af annarri ástæðu óheppilegt sem eiginnafn. Það er mat umboðsmanns barna að í löggjöf um mannanöfn þurfi að slá ákveðinn varnagla, samkvæmt sænskri fyrirmynd, við því að barn þurfi að bera nafn, til lengri eða skemmri tíma, sem er til þess fallið að valda því óþægindum og vanlíðan. Þá vill umboðsmaður barna árétta að á löggjafanum hvílir sú skylda að tryggja börnum þá vernd sem velferð þeirra krefst eins og kveðið er á um í 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og 3. gr. Barnasáttmálans."
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna