2. mars 2018

Frumvarp til laga um íslenskan ríkisborgararétt og barnalög (ríkisfangsleysi), 133. mál

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um útlendinga (fylgdarlaus börn), 42. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. mars 2018.

Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og barnalögum (ríkisfangsleysi) 133. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 2. mars 2018.

Skoða frumvarpið. 
Skoða feril málsins.

 

Umsögn umboðsmanns barna

 

Reykjavík, 2. mars 2018


Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt og barnalögum (ríkisfangsleysi) 133. mál.


Vísað er í tölvupóst frá nefndarsviði Alþingis, dags. 13.febúrar sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.

Öll börn eiga rétt á ríkisfangi samkvæmt 7. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sbr. lög nr. 19/2013 og er mikilvægt að tryggja þau réttindi án mismununar af nokkru tagi, sbr. 2. gr. sáttmálans. Er því að mati umboðsmanns barna afar ánægjulegt að í frumvarpinu séu lagðar til nokkrar breytingar sem miða að því að auka jafnræði barna við veitingu ríkisborgaréttar, þannig að barn sem er ættleitt undir 18 ára aldri öðlist íslenskan ríkisborgararétt við ættleiðingu að nánari skilyrðum uppfylltum, sbr. 4. gr. frumvarpsins, í stað 12 ára líkt og núgildandi lög um íslenskan ríkisborgararétt gera ráð fyrir.

Umboðsmaður barna telur jákvætt að í b-lið 4. gr. frumvarpsins sé lagt til að barn sem náð hafi 12 ára aldri skuli veita samþykki sitt fyrir því að verða íslenskur ríkisborgari. Hann fagnar því að einnig að áréttað sé að ef barn er yngra en 12 ára eigi jafnframt að sýna fram á að samráð hafi verið haft við barnið, enda eiga öll börn rétt á að tjá sig um mál sem þau varða og ber jafnframt að taka réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur og þroska, sbr. 12. gr. Barnasáttmálans.

Umboðsmaður barna fagnar því að með frumvarpinu sé leitast við að koma til móts við ungt fólk sem búið hefur hér á landi frá unga aldri. Hann ítrekar þó það sem fram kom í fyrri umsögn umboðsmanns að hann telji rétt að rýmka heimild einstaklinga sem hafa komið til landsins sem fylgdarlaus börn í leit að alþjóðlegri vernd til að öðlast ríkisborgararétt. Ljóst er að einstaklingar eru börn til 18 ára aldurs og eiga að njóta sérstakrar verndar. Barnasáttmálinn kveður á um sérstök réttindi til handa börnum og sérstaka vernd þeirra enda eru börn berskjaldaður hópur sem á erfitt með að leita réttar síns þegar við á.. Þá þarf að hafa í huga að fylgdarlaust barn getur hafa upplifað miklar hörmungar og verið lengi á flótta og því ekki notið þeirrar sérstöku verndar sem Barnasáttmálinn kveður á um.

Umboðsmaður telur því rétt að börn án fylgdar eigi að hafa möguleika á að öðlast íslenskan ríkisborgararétt að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. frumvarpsins er sá réttur bundinn við þau skilyrði að umsækjandinn sé ekki orðinn eldri en 18 ára að þremur árum liðnum. Það þýðir að breytingin tekur ekki til fylgdarlausra barna sem koma hingað til lands og eru 15 ára eða eldri. Með vísan til framangreinds áréttar umboðsmaður barna að nauðsynlegt er að taka til skoðuna hvort rýmka eigi þessa heimild þannig að umræddar breytingar taki einnig til þeirra sem hafa komið hingað til lands sem börn án fylgdar og voru á þeim tímapunkti 15 ára eða eldri.

 

Virðingarfyllst,


Salvör Nordal,
umboðsmaður barna


Hafðu samband

Póstlisti


Þetta vefsvæði byggir á Eplica