Frumvarp til laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 24. febrúar 2003
Tilvísun: UB 0302/4.1.1
Efni: Frumvarp til laga um Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
Vísað er til bréfs félagsmálanefndar Alþingis, dagsett 14. febrúar 2003, þar sem óskað er eftir umsögn minni um ofangreint frumvarp.
Með bréfi, dagsettu 23. janúar 2001, veitti ég umsögn mína um frumvörp til laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, 242. mál, heildarlög, Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, 241. mál og réttindagæslu fatlaðra, 331. mál. Leyfi ég mér að vísa til þeirrar umsagnar hvað varðar Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Jafnframt vil ég koma eftirfarandi á framfæri við félagsmálanefnd:
Á umliðnum árum hefur embætti mínu borist fjöldi ábendinga og fyrirspurna, er varða fötluð börn og þjónustu hins opinbera við þau. Í seinni tíð hafa ábendingar og fyrirspurnir í auknum mæli varðað skerta þjónustu við þessi börn og fjölskyldur þeirra. Sérstaklega hefur borið á ábendingum vegna biðar eftir greiningu barna, sem grunur leikur á að séu fötluð.
Þessi skerta þjónusta og bið eftir greiningu gerir fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra ákaflega erfitt fyrir. Bið þeirra eftir aðstoð við greiningu og/eða ráðgjöf vegna gruns um að barn sé fatlað, er erfiðari en orð fá lýst, en fram hefur komið að biðtími eftir greiningu geti verið margir mánuðir. Þá er ónefndur sá hópur barna, sem ekki nýtur þjónustu Greiningar- og ráðgjafastöðvarinnar, eða aðeins að takmörkuðu leyti, en þyrfti á slíkri þjónustu að halda. Þetta eru m.a. börn með Asperger-heilkenni og framheilasködduð börn.
Er það von mín, að skýr lagagrunnur, þar sem leitast er við að staðfesta og lögbinda starfshætti, leiði til eflingar Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, með það markmið að auka skilvirkni og bæta þjónustu við börn og unglinga hér á landi.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal