Frumvarp til laga um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota - skilyrði bótagreiðslu
Allsherjarnefnd Alþingis óskaði umsagnar umboðsmanns barna um frumvarp til laga um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, 67. mál, skilyrði bótagreiðslu. Umsögn sína veitti umboðsmaður í bréfi, dagsettu 8. nóvember 1999.
Nefndasvið Alþingis
Austurstræti 8-10
150 Reykjavík
Reykjavík, 8. nóvember 1999
Tilvísun: UB 9911/4.1.1
Efni: Frumvarp til laga um greiðslur ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota - skilyrði bótagreiðslu
Vísað er til bréfs allsherjarnefndar, dags. 19. október 1999, þar sem óskað er eftir umsögn minni um frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, 67. mál, skilyrði bótagreiðslu.
Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að tilefni þess sé erindi mitt til dómsmálaráðherra, dags. 15. september 1997, sem fylgdi í kjölfar skýrslu umboðsmanns barna, Heggur sá er hlífa skyldi, og fjallaði um kynferðisbrot gegn börnum og ungmennum. Í fyrrnefndu erindi lagði ég m.a. til að ákvæði 6. gr. laga nr. 69/1995 yrði tekin til endurskoðunar þar eð skilyrði þau sem þar eru tilgreind ættu almennt illa við þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða og útilokaði bótarétt í mörgum tilvikum.
Með ofangreindu frumvarpi er lagt til að við 6. gr. laga nr. 69/1995 verði bætt undantekningarreglu sem gerir ráð fyrir að þegar veigamikil rök mæli með megi víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. 6. gr, en þau reisa skorður þeim tíma liðið getur frá því að tjón er unnið og til þess að tjónþoli fari fram á bætur. Tekið er fram í athugasemdum að enda þótt tilefni frumvarpsins sé að styrkja réttarstöðu barna sem þolenda afbrota, og þá alveg sérstaklega þeirra barna sem þolað hafa kynferðislegt ofbeldi, sé rétt að gera ráð fyrir því að í fleiri tilvikum kunni að vera ástæða til að víkja frá skilyrðunum. Af þeim sökum sé heimildin ekki bundin við börn eingöngu.
Þótt ég hefði kosið að hafa orðalag frumvarpstextans afdráttarlausara gagnvart umbjóðendum mínum tel ég orðalag, í athugasemdum frumvarpsins um tilefni og markmið væntanlegrar lagasetningar, það augljóst að ekki eigi að leika vafi á hvernig skýra beri ákvæðið þegar að framkvæmd þess kemur. Ég fagna því tillögunni og mælist eindregið til þess að frumvarpið hljóti samþykki á hinu háa Alþingi.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Líndal