Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, 25. mál
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn umboðsmanns barna um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, 25. mál. Umsögn sína veitti umboðsmaður barna með tölvupósti dags. 26. október 2018.
Skoða frumvarpið.
Skoða feril málsins.
Umsögn umboðsmanns barna
Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis
Reykjavík, 26. október 2018
Efni: Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til að heimila skráningu lögheimilis barna hjá báðum forsjárforeldrum, 25. mál.
Vísað er í tölvupóst frá nefndasviði Alþingis, dags. 28. september sl., þar sem óskað er eftir umsögn umboðsmanns barna um framangreint frumvarp.
Umboðsmaður barna telur það mikilvæg réttindi barna að fá að njóta samskipta og persónulegra tengsla við báða foreldra sína. Að mati umboðsmanns barna snýst þó tvöföld lögheimilisskráning fyrst og fremst um jafna stöðu foreldra en ekki hagsmuni og réttindi barna. Mikilvægt er að grípa til aðgerða sem styrkja réttindi barna til að fá að njóta samskipta við báða foreldra sína, til að mynda með því að tryggja báðum foreldrum barns þann opinbera stuðning sem þeir þurfa til að geta sinnt skyldum sínum gagnvart barni sínu. Sem dæmi má nefna að barn með fötlun fær einungis hjálpartæki ásamt nauðsynlegum stuðningi inn á heimili lögheimilisforeldris en ekki beggja foreldra. Slíkt getur verulega takmarkað rétt barna með fötlun til þess að umgangast báða foreldra sína.
Foreldrum sem fara sameiginlega með forsjá barns ber að hafa samráð og standa saman að öllum meiriháttar ákvörðunum sem varða barnið, sbr. 28. gr. a. barnalaga nr. 76/2003. Þó að það sé vissulega æskilegt að foreldrar sem fara sameiginlega með forsjá barns standi saman að öllum ákvörðunum sem varða barnið er ljóst að í ákveðnum tilvikum geta foreldrar verið ósammála. Mikilvægt er að tryggja að deilur foreldra bitni sem minnst á barninu sem um ræðir. Af þessum ástæðum er það því að mati umboðsmanns barna ekki heppileg leið að taka alfarið út að annað foreldrið geti tekið daglegar ákvarðanir sem varða barnið í þeim tilvikum sem foreldrar geta ekki komist að sameiginlegri niðurstöðu. Líf barns þarf að geta haldið áfram og það fengið þjónustu og aðstoð sem það á rétt á þrátt fyrir deilur foreldra. Tilgangurinn að hafa ákvæði þess efnis er að skapa góð og þroskvænleg skilyrði fyrir barn í slíkum aðstæðum. Mikilvægt er að varanagli af einhverju tagi sé til staðar ef upp kemur ágreiningur um málefni barns sem foreldrar geta ekki komið sér saman um svo ágreiningurinn bitni ekki á barninu.
Þá er ljóst að dómsmálaráðuneytið hefur hafið vinnu við könnun á búsetu barna og á grundvelli þeirrar vinnu stendur til að leggja fram frumvarp til breytinga á ýmsum lögum er varða tvöfalda lögheimilisskráningu barna. Í nefndaráliti með breytingartillögu frá allsherjar- og menntamálanefnd um frumvarp til laga um lögheimili og aðsetur kemur fram að um er að ræða ítarlega greiningarvinnu á því hvernig skráningu lögheimila barna er háttað þegar foreldrar hafa skilið að skiptum og börn búa til jafns hjá báðum foreldrum ásamt réttaráhrifa skráningarinnar. Einnig kemur fram að mikilvægt sé að skoða þetta fyrirkomulag og leggur nefndin áherslu á að ráðuneytið flýti þeirri vinnu eins og kostur er. Umboðsmaður barna tekur undir álit nefndarinnar og telur rétt að bíða eftir niðurstöðum greiningarvinnu ráðuneytisins til að útfæra nánar mögulegar leiðir í þessum efnum.
Virðingarfyllst,
Salvör Nordal,
umboðsmaður barna